Efnistaka úr skriðum
Efnistaka í skriðum getur haft mikil sjónræn áhrif og verið til lýta í umhverfinu og því ætti að forðast slíka efnistöku eins og kostur er.
Skriður eru ein algengasta gerð lausra jarðlaga. Nokkuð hefur verið um efnistöku úr skriðum hér á landi og hefur skriðuefni helst verið notað í fyllingu og malarslitlag vega. Víða setja skriður sterkan svip á landslagið og oft eru litríkar líparítskriður teknar sem dæmi um sérstaklega fallegt landslag. Dæmi um skriðu sem engum dytti í hug að raska með efnistöku er skriðan í Hafnarfjalli. Óröskuð skriða hefur mótast á löngum tíma í halla sem er stöðugur við um það bil 34°, þ.e. halla 1:1,5. Stundum hefur með efnistöku verið farið djúpt inn í skriðu þannig að jafnvægi hennar raskast og vik myndast í yfirborð hlíðarinnar. Við slíka efnistöku og röskun á jafnvægi skriðunnar getur orðið hrun eins og þekkt er víða um land í fögrum skriðum. Þegar efni er tekið djúpt úr skriðu getur reynst mjög erfitt að ganga frá þannig að námusvæðið falli vel að nánasta umhverfi. Dæmi um slíka efnistöku er í skriðu við gamlan veg um Almannaskarð (sjá mynd hér fyrir neðan).
Almannaskarð nr. 16223. Mjög mikil lýti af efnistöku í skriðu í fallegu umhverfi undir Skarðstindi. Nær ómögulegt er að ganga frá námunni svo vel fari.
Þrátt fyrir að skriður njóti ekki sérstakrar verndar sem jarðminjar samkvæmt lögum um náttúruvernd er almennt óæskilegt að taka efni úr skriðum þar sem efnistaka í þeim er til mikilla lýta í landslagi, jafnvel þegar um litla efnistöku er að ræða.Efnistaka úr skriðu getur auk þessa valdið því að skriðan verði óstöðug og að yfirborð hennar skríði fram allt upp að klettabeltum sem geta verið ofarlega í fjallinu. Þetta getur valdið því að skriða falli yfir veg og valdi hættu fyrir vegfarendur auk þess sem vegurinn gæti lokast tímabundið.
Ef ráðist er í efnistöku úr skriðu ætti að forðast að grafa djúpt inn í hana heldur taka efni grunnt og á stærra svæði ef ætlunin er að ganga frá námunni þannig að hún falli vel að landi að efnistöku lokinni. Dæmi um slíka efnistöku má sjá við Foss á Síðu (sjá mynd hér fyrir neðan). Höfundar námuvefsins telja þó að leita ætti allra leiða til að forðast efnistöku úr skriðum vegna mikilla neikvæðra sjónrænna áhrifa sem slík efnistaka getur valdið.
Fossnáma nr. 19390. Náma í skriðu undir Þverárhnúpi á Síðu. Gengið var frá námunni árið 2017. Náman er í mjög fallegu grónu umhverfi í skriðu undir móbergshömrum gegnt Orustuhóli og eru mikil lýti að efnistökunni. Frágangur er góður en uppgræðsla námunnar mun taka mörg ár.
Uppfært 19. ágúst 2019