Verndarsvæði
Forðast skal röskun verndarsvæða og hafa samráð við hlutaðeigandi stofnanir og sveitarfélög varðandi nýtingu þeirra til efnisvinnslu.
Svæðum sem eru sérstæð eða kunna að hafa verndargildi má í grófum dráttum skipta í tvennt:
- Svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum, þar sem stjórnvöld hafa lagt fram stefnu varðandi mat á verndargildi þeirra.
- Önnur svæði sem þykja á einhvern hátt sérstæð, t.d. vegna landslags- forma, fræðslugildis eða sögu.
Forðast skal röskun ofangreindra svæða og hafa samráð við hlutaðeigandi stofnanir og sveitarfélög varðandi nýtingu þeirra. Ef óhjákvæmilegt reynist að taka efni á þessum svæðum, þarf að leggja sérstaka alúð við skipulagningu, efnistöku og frágang.
Samkvæmt lögum um náttúruvernd njóta tiltekin vistkerfi og jarðminjar sérstakrar verndar, sjá nánar töfluna hér fyrir neðan, og ber að forðast að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til.
Verndarsvæði samkvæmt lögum
Verndarsvæði samkvæmt lögum eru landsvæði sem eru friðlýst eða njóta tiltekinnar verndar. Í töflunni hér fyrir neðan eru tíunduð þau verndarsvæði og þær minjar, samkvæmt lögum, sem gæta þarf sérstaklega að þegar framkvæmdir, s.s. efnistaka, eru fyrirhugaðar. Í töflunni er einnig listi yfir stofnanir og aðra er veitt geta nánari upplýsingar um þessi verndarsvæði. Um er að ræða friðlýst svæði og önnur náttúruverndarsvæði, jarðminjar og vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar, fornminjar, hverfisverndarsvæði, vatnsverndarsvæði og svæði sem falla undir alþjóðlega samninga sem Ísland er bundið af. Skylt er að leita leyfis eða umsagnar tiltekinna aðila áður en ákvörðun er tekin um veitingu framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem haft geta áhrif á verndarsvæði. Sjá nánar um leyfisveitingar hér.
Á friðlýstum svæðum getur auk annarra leyfa þurft leyfi Umhverfisstofnunar fyrir efnistöku, en það er háð ákvæðum í auglýsingu um friðlýsingu viðkomandi svæðis. Efnistaka innan Vatnajökulsþjóðgarðs er einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn, sbr. lög um Vatnajökulsþjóðgarð og efnistaka innan þjóðgarðsins á Þingvöllum er háð samþykki Þingvallanefndar, sbr. lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Auk þess að athuga hvort efnistaka tengist fyrrgreindum svæðum eða minjum ber að gæta sérstaklega að því hvort framkvæmdir geti haft áhrif á gróðurþekju og/eða valdið jarðvegsrofi. Jafnframt þarf að gæta að því hvort breytingar geti orðið á rennsli straumvatna eða hvort hætta er á áhrifum á lífríki í ám eða vötnum. Samþykki opinberra aðila þarf fyrir framkvæmdum sem haft geta slík áhrif í för með sér.
Svæði sem þykja sérstæð og kunna að hafa verndargildi
Við leit að efnistökustað ber að hafa í huga að þrátt fyrir að svæði njóti ekki sérstakrar verndar samkvæmt lögum, þá geta þau haft verndargildi vegna sérstöðu sinnar. Hér er um að ræða svæði sem geta verið sérstök kennileiti eða hafa sérstakt menningarsögulegt gildi fyrir viðkomandi byggðarlag eða landshluta. Við mat á verndargildi eða sérstöðu ber að taka tillit til eftirfarinna þátta er lúta að náttúrufari eða menningarminjum:
- sérkenni
- fágæti
- fjölbreytni
- fyrri röskun
- fræðslugildi
- líffræðileg fjölbreytni
- jarðmyndanir, gerð og fágæti
- táknrænt og sögulegt gildi
Auk þess ber að hafa í huga fagurfræðilegt gildi svæðisins svo sem:
- heildaryfirbragð
- ríkjandi landslagsform
- fjölbreytni
- breytileg landform t.d. sléttlendi og hæðir
Nánari upplýsingar um þessa þætti er að fá hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Minjastofnun Íslands.
Auk þessa má benda á að Vegagerðin hefur útbúið flokkunarkerfi, þar sem lagt er mat á hvar æskilegt er að efni sé tekið og hvar ekki. Flokkunarkerfi sem þetta má hafa til hliðsjónar þegar kannað er hvort svæði hefur hátt eða lágt verndargildi, sjá nánar hér.