Verndarflokkun Vegagerðarinnar
Vegagerðin notar eftirfarandi verndarviðmið til að meta hversu viðkvæmt svæði er fyrir fyrirhugaðri efnistöku.
Í námukerfi Vegagerðarinnar er flokkunarkerfi þar sem lagt er mat á hvar æskilegt er að efnistaka fari fram og hvar ekki. Flokkarnir eru fimm, frá fyrsta flokki með mjög hátt verndargildi og niður í fimmta flokk með mjög lágt verndargildi. Þessi flokkun gefur vísbendingu um hve viðkvæmt fyrirhugað efnistökusvæði er og hversu líklegt er að efnistaka kunni að hafa umhverfisáhrif.
Verndarflokkun Vegagerðarinnar er í samræmi við stefnumið í umhverfisstefnu Vegagerðarinnar þar sem segir m.a.:
- Við stefnumótun, hönnun, byggingu og rekstur
samgöngumannvirkja leitast Vegagerðin við að vernda ósnortið land, víðerni og
verndarsvæði, vistkerfi, landslagsheildir, náttúru- og menningarminjar.
- Vegagerðin leggur áherslu á að takmarka röskun
lands, frágangur falli vel að landslagi og umgengni sé til fyrirmyndar.
Umhverfisstefnuna í heild er að finna á http://www.vegagerdin.is.
1. flokkur: Mjög hátt verndargildi
Svæði: Í þennan flokk falla friðlýst svæði á A-hluta náttúruminjaskrár, s.s. þjóðgarðar, friðlönd, náttúruvætti eða svæði sem eru friðuð með sérlögum t.d. Þingvellir, Mývatn og Laxá í Mývatnssveit. Hér flokkast einnig verndarsvæði vatnsbóla, þ.e. brunnsvæði og grannsvæði. Fjörur í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum svo langt frá flæðarmáli, að öruggt sé að ekki stafi hætta á landbroti eða öðrum skemmdum af völdum sjávar. Í þennan flokk falla einnig eldvörp og gervigígar.
2. flokkur: Hátt verndargildi
Svæði: Náttúruminjar á B og C hluta náttúruminjaskrár fá þessa einkunn. Í þennan flokk falla einnig svæði þar sem efnistaka gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir dýralíf, gróðurfar, mannvirki, einstakar jarðmyndanir, fallega náttúru eða stórfenglegt eða sjaldgæft landslag svo sem falleg gil. Aðrar jarðmyndanir flokkast með hátt verndargildi t.d. vegna vísinda og/eða þekkingargildis, fágætis, sögu, fegurðar, mikilúðar og útivistar. Einnig svæði þar sem efnistaka getur haft í för með sér alvarlega röskun á vistkerfum, fornleifum og menningarminjum. Merk kennileiti þ.e. myndanir sem eru áberandi í umhverfinu og eru þekkt í þjóðar-vitundinni falla einnig í þennan flokk.
Jarðmyndanir: Jarðmyndanir í eldhraunum sem njóta sérstakrar verndar.
Einnig fágætar jarðmyndanir svo sem malarásar, stuðlaberg og fundarstaðir
steingervinga.
Gróðurlendi: Votlendi s.s. hallamýrar og flóar 10.000 m2 eða stærri.
Svæði vaxin náttúrulegum birkiskógi, fjölbreyttum og/eða sjaldgæfum gróðri
fellur undir þennan flokk.
Ár, vötn og sjór: Stöðuvötn og tjarnir stærri en 1.000 m2, fossar, hverir, sjávarfitjar og leirur. Efnistaka úr árfarvegum og óseyrum veiðiáa og af vatnsbotni og vatnsbakka veiðivatna. Efnistaka af sjávarbotni þar sem lífríki er mikið t.d. uppeldisstöðvar sjávardýra eða þar sem hætta er á að landbrot geti orðið vegna efnistökunnar. Einnig fjarsvæði vatnsbóla.
3. flokkur: Meðal verndargildi
Jarðmyndanir: Jarðmyndanir sem hafa lágt verndargildi en eru áberandi frá fjölförnum svæðum. Einnig landslagsheildir þar sem efnistaka hefur veruleg áhrif á heildarásýnd svæðis. Dæmi eru skriðuset og aurkeilur sem eru mjög algengar jarðmyndanir og tiltölulega efnismiklar og njóta því engrar sérstakrar verndar. Sár í slíkum jarðmyndunum eru þó oft áberandi þar sem þær teygja sig upp í fjallshlíðar. Einnig jaðarhjallar, árhjallar og malarhjallar þar sem efnistaka skapar áberandi sár.
Gróður: Svæði vaxin víðiflesjum og fjölbreyttum gróðri.
Ár og sjór: Ár sem hafa takmarkaða silungsveiði og hafsbotn innan netlaga og/eða með fjölbreytt dýralíf.
4. flokkur: Lágt verndargildi
Jarðmyndanir: Í þennan flokk falla jarðmyndanir eins og jaðarhjallar, aurkeilur, skriðuset, strandset og fokset, sem eru ekki sjáanlegar frá vegum eða öðrum fjölförnum svæðum.
Gróður: Hér fellur einnig undir grasi gróið land, sem hefur enga aðra sérstöðu.
Ár og sjór: Ár þar sem lítil veiði er og sjávarbotn þar sem er fáskrúðugt lífríki og ekki hætta á landbroti vegna efnistöku.
5. flokkur: Mjög lágt verndargildi
Jarðmyndanir: Í þennan flokk falla jarðmyndanir sem njóta engrar sérstakrar verndar og þar sem auðvelt er hylja rask eftir efnistöku. Jökuláraurar og jökulurðir falla hér undir, ef þær eru ekki nálægt fjölförnum svæðum.
Gróður: Gróðurlaust land, eða land þar sem gróðurþekja er minni en 10% af yfirborði svæðis.