Val á svæði
Við val á efnistökusvæði er mikilvægt að velja efni úr þeirri gerð jarðmyndunar sem best hentar fyrirhuguðum notum á efninu, einnig er mikilvægt að haga efnistöku þannig að hún valdi sem minnstum spjöllum á landi.
Við val á efnistökusvæði er mikilvægt að velja efni úr þeirri gerð jarðmyndunar sem best hentar fyrirhuguðum notum á efninu, sjá nánar umfjöllun um jarðmyndanir hér. Mikilvægt er að haga efnistöku þannig að hún valdi sem minnstum spjöllum á landi. Þegar efnistökusvæði er valið, þarf að kanna hvort svæðið nýtur verndar samkvæmt lögum. Síðan þarf að skipuleggja námusvæðið í heild og ákveða tilhögun á efnistöku og frágangi svæðisins. Þegar efnistöku lýkur er nauðsynlegt að ganga þannig frá efnistökusvæði að það falli sem best að umhverfinu.
Efnistaka getur breytt jarðmyndunum og gróðri varanlega. Hún getur einnig verið lýti á landi á meðan á henni stendur. Ef efni hefur verið numið úr jarðmyndunum sem eru sérstæðar eða ef illa er gengið frá efnistökusvæði þegar efnistöku lýkur, verður náman áfram til lýta. Þess vegna er mikilvægt að vanda val á efnistökusvæði og skipuleggja það vel áður en hafist er handa. Þannig má stýra þeirri óhjákvæmilegu röskun sem fylgir efnistöku þannig að sýnileg áhrif efnistökunnar verði sem minnst að frágangi loknum.
Þegar efnisþörf er ljós, er hafist handa við leit að hentugu efnistökusvæði. Þegar efnistökusvæði er valið þarf að hafa í huga:
- Hver efnistökuþörfin er.
- Að líta þarf á jarðefni sem auðlind og nýta efni til þess sem það er best til fallið.
- Að efnistakan sé á landi sem ekki hefur hátt verndargildi.
- Að landslagsheildin þoli efnistöku án þess að svipmót hennar raskist.
- Að kleift sé að ganga ásættanlega frá efnistökusvæði þegar efnistöku lýkur.
- Að efnistökusvæði sé lítt sýnilegt frá fjölförnum stöðum, sérstaklega ef efnistökusvæðið verður opið í einhvern tíma.
- Að efnistaka sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlun.
- Að þess sé gætt að efnistaka úr ám og sjó valdi ekki hættu á landbroti, hvorki úr árbökkum né strandlengju.
Undirbúningur skiptist í nokkur skref:
1. Val á hentugu efnistökusvæði og mat á verndargildi þess.
2. Skipulagning efnistöku:
- Samningsgerð við landeiganda.
- Skipulagning á námusvæði og efnistöku, svo sem áfangaskipting, landmótun, uppgræðsla og annar frágangur, sjá skipulagningu efnistöku.
- Könnun á matsskyldu efnistökunnar, sjá mat á umhverfisáhrifum.
- Gerð áætlunar um efnistöku og öflun tilskilinna leyfa.
Við val á efnistökusvæði er mikilvægt að hafa verndargildi svæðis í huga. Gera má ráð fyrir að auðveldara sé að fá leyfi fyrir efnistöku á svæði með tiltölulega lágt verndargildi, en ef til dæmis um er að ræða svæði er nýtur verndar samkvæmt lögum.
Þegar efnistökusvæði hefur verið valið þarf að ganga frá samningi við landeiganda og afla tilskilinna leyfa fyrir efnistökunni, sjá nánar hér.
Yfirlit um helstu skref við undirbúning og skipulagningu efnistöku og leyfisveitingar henni tengdar er sýnt á flæðiritinu hér fyrir ofan (smelltu á flæðiritið til að fá upp stærri mynd). Yfirlitið á við um nær alla efnistöku á landi og af hafsbotni innan netlaga eða innan 115 m frá stórstraumsfjöruborði.
Ef vinnslutími er stuttur er æskilegt að velja efnistökusvæði fyrst og fremst með tilliti til þess hversu auðvelt er að ganga frá að efnistöku lokinni á kostnað annarra þátta eins og sýnileika frá fjölförnum stöðum. Ef fyrirhugað er að efnistaka taki lengri tíma, eða ef efni er tekið úr jarðmyndunum sem erfitt getur verið að lagfæra, þá ætti að velja efnistökustað þar sem efnistaka er sem minnst áberandi frá alfaraleið og úr jarðmyndunum sem ekki þykja sérstæðar. Einnig þarf að huga vel að staðsetningu efnistökusvæða, þar sem hávaði, ryk og önnur mengun eða óþægindi geta fylgt efnistökunni.