Skipulagning efnistöku
Mikilvægt er að skipuleggja efnistöku vel áður en hún hefst og huga meðal annars að áfangaskiptingu efnistöku og hvernig ganga eigi frá námusvæðinu að efnistöku lokinni.
Hvað þarf að skipuleggja?
Þegar námusvæði hefur verið valið þarf að skipuleggja það vel áður en efnistaka hefst:
- Efnistökusvæðið í heild sinni, tilhögun efnistöku, vinnslutímabil og áfangaskiptingu efnistökunnar.
- Tilhögun landmótunar og frágang efnistökusvæðis að efnistöku lokinni.
- Uppgræðslu efnistökusvæðis þar sem það á við.
Ofangreind atriði þurfa að liggja fyrir áður en sótt er um framkvæmdaleyfi og koma fram í áætlun um efnistöku, sjá nánar hér.
Skipulagning námusvæðis og áfangaskipting efnistöku
Við skipulagningu efnistökusvæðis þarf að huga að því hvernig nýta á það land sem fer undir námusvæðið og hvernig það muni tengjast vegum og öðrum mannvirkjum sem eru fyrir á svæðinu eða í nágrenni þess.
Námusvæði skiptist í eftirfarandi hluta:
- Efnistökusvæði, þar sem efnistaka fer fram.
- Haugsvæði, þar sem vinnsluefni er haugsett tímabundið, auk efnis sem nýta á til frágangs á svæðinu. Ætla þarf nægilega stórt svæði til aksturs vinnuvéla þannig að ekki þurfi að aka yfir haugsett efni. Einnig þarf haugsvæði að vera nægjanlega stórt til að hægt sé koma fyrir lausum jarðvegi, svarðlagi og öðru efni sem þarf til að ganga vel frá efnistökusvæði.
- Athafnasvæði, þar sem staðsettar eru vinnubúðir og tæki sem notuð eru við efnistöku.
- Námuveg, sem er sá vegur sem liggur frá næsta vegi inn á námusvæðið.
Ef leggja þarf veg að svæðinu þarf að tilgreina í áætlun um efnistöku hvers konar jarðvegur og gróðurfar er á því landi sem námuvegurinn verður byggður á.
Haugur, lager og tippur
Frágangur og staðsetning hauga, lagers og tippa miðast við hversu lengi áætlað er að geyma það efni sem í þeim er.
- Haugur er efni, til dæmis möl eða sandur, sem ætlað er til geymslu tímabundið. (Bent skal á að við virkjanaframkvæmdir hefur tíðkast önnur notkun hugtaksins haugur en tíðkast við vegagerð. Haugur og haugsvæði hafa verið notuð þegar efni er komið varanlega fyrir, þar sem annars er notað orðið tippur).
- Grjótlager er stórgrýti, sem geymt er til mannvirkjagerðar.
- Tippur er haugur sem myndast og ætlaður er til tímabundinnar geymslu, til síðari frágangs í vegi eða aðrar framkvæmdir eða til varanlegrar geymslu. Efni sem ekki er ætlunin að nýta í náinni framtíð og telst varanleg viðbót við landslag. Efni í tipp er hægt að nýta til frágangs og landmótunar og er æskilegt að velja honum stað þar sem hafa má af honum not, til dæmis sem landauka, bílastæði eða hljóðmön.
Velja þarf stæði fyrir hauga og lagera þannig að auðvelt sé að taka úr þeim efni. Nauðsynlegt er að fella hauga og lagera að landslagi eins og kostur er, svo ekki verði lýti að þeim.
Tippa sem eru til varanlegrar geymslu þarf að fella að landslagi og gróðurfari nánasta umhverfis með skipulegum hætti, þannig að þeir verði hluti landslags að frágangi loknum. Ákveða þarf tilhögun frágangs strax í áætlun um efnistöku.
Sérstakar reglur gilda um jarðefni sem komið er fyrir á hafsbotni. Umhverfisstofnun er leyfisveitandi og hefur útbúið leiðbeinandi reglur um meðferð dýpkunarefnis. Þar er gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um varp jarðefna í hafið.
Áfangaskipt efnistaka
Námusvæði skal ekki standa ónotað eða ófrágengið lengur en í þrjú ár. Heimilt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði (sjá nánar hér), enda séu sérstakar ástæður fyrir tímabundinni stöðvun. Ef efnistaka stendur lengi yfir, er nauðsynlegt að áfangaskipta henni, ef kostur er, og ganga sem fyrst frá þeim hlutum svæðisins þar sem efnistöku er lokið.
Helsti kostur áfangaskiptrar efnistöku er að minna svæði er raskað í einu og gæði þess jarðvegs sem notaður er til frágangs aukast eftir því sem styttri tími líður frá því að jarðvegi er ýtt ofan af efnistökusvæði, þar til hann er nýttur aftur. Með vel skipulagðri áfangaskiptingu ætti kostnaður vegna frágangs að lækka þar sem öll tæki sem nota þarf eru á staðnum og nýtast jafnvel til frágangs þegar hlé verður á sjálfri efnistökunni. Leitast skal við að láta mörk vinnslusvæða fylgja landformum viðkomandi svæðis þannig að hver áfangi falli sem best að landformum nánasta umhverfis.
Dæmi um áfangaskiptingu við efnistöku og frágang er sýnt á myndinni hér til hliðar. Efnistaka hefst á svæði A, með því að ýta svarðlagi yfir á haugsvæði auk annars efnis sem nýta á til frágangs. Þegar efnistaka á svæði B hefst, þá er gengið frá svæði A og svæði C undirbúið fyrir efnistöku. Frágangi á svæði A lýkur með sáningu um leið og efnistöku á svæði B er að ljúka. Því næst er gengið frá svæði B og jarðvegur sem fjarlægður er af svæði C er fluttur á svæði B.