Efnistaka úr gosminjum
Eldvörp, gervigígar og eldhraun frá nútíma njóta sérstakrar verndar og skal forðast efnistöku úr þeim eins og kostur er.
Eldvörp, gervigígar og eldhraun frá nútíma, hér nefndar gosminjar (þ.e. yngri en 10.000 ára) njóta sérstakrar verndar og skal samkvæmt lögum um náttúruvernd forðast röskun þeirra nema brýna nauðsyn beri til. Þetta útilokar ekki efnistöku úr þessum jarðmyndunum, en vegna verndargildis þeirra ætti að leita allra annarra leiða með efnistöku. Hafa verður í huga að jarðmyndunum eins og eldvörpum og gervigígum hefur víða verið raskað, meðal annars með efnistöku, og því hafa þær jarðmyndanir sem enn eru eftir óraskaðar ennþá meira verndargildi en áður. Aðstandendur þessarar vefsíðu, þ.e. Umhverfisstofnun, Vegagerðin og Landsvirkjun, telja því í raun óásættanlegt að fram fari efnistaka í gervigígum og eldvörpum og að stuðla beri að verndun þeirra. Hér er ekki fjallað um gjósku þ.e. vikur og gosösku, því þessar jarðmyndanir njóta ekki sérstakrar verndar og um frágang þeirra eru viðhöfð sömu vinnubrögð og þegar um setnámur er að ræða.
Flokkun gosminja
Hægt er að flokka gosminjar á eftirfarandi hátt:Apalhraun
Apalhraun eru úfin og er yfirborð þeirra úr gjalli eða lausu hraungrýti. Þessi gjallkargi getur verið nokkurra metra þykkur. Þá tekur við stuðluð klöpp eða hraunstál sem getur verið tugir metra á þykkt og loks er í botni þunnt gjalllag sem myndast þegar hraun- eða gjallmolar falla fram af hraunjaðrinum þegar hraunið rennur. Dæmi um apalhraun er Klifhraun á Snæfellsnesi.
Helluhraun
Yfirborð helluhrauna er föst klöpp oft gáruð og mikið er um hraunhóla sem eru sprungnir í kollinn. Hraunstraumurinn rennur oft langar leiðir undir storknuðu yfirborði en myndar síðan þunna hrauntauma sem oft leggjast hver yfir annan. Þannig geta hlaðist upp staflar myndaðir úr mörgum tiltölulega þunnum lögum eða beltum.
Gjallgígar
Gjallgígar myndast þegar glóandi kvikustrókar storkna og falla til jarðar og hlaða upp gígvegg úr gjalli. Ef kvikustrókarnir eru aðeins hálfstorknaðir geta þeir flast út og bráðnað saman þannig að þeir mynda klepragíga. Gjallið er glerkennt og blöðrótt og ýmist svart eða rautt að lit.
Gervigígar
Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir votlendi svo sem mýrar, sanda, aura eða grunn stöðuvötn. Vatnið hvellsýður þannig að kvikan tætist í sundur og gjallhaugar hrúgast upp. Gervigígar líkjast oft gjallgígum en þar sem þeir mynda óreglulegar þyrpingar er auðvelt að greina þá frá. Dæmi: Rauðhólar við Reykjavík.
Illmögulegt er að ganga frá námum í hrauni og gígum, þannig að svæðið falli að umhverfi að efnistöku lokinni. Þetta á sérstaklega við þegar um yfirborðsvinnslu á gjallkarga er að ræða. Oft er um afar lítið nýtanlegt efnismagn að ræða þar sem gjallkargi er yfirleitt á bilinu 0,5 til 3 m þykkur. Milda má áhrif yfirborðsvinnslu með því að brjóta niður hraunkant umhverfis námusvæðið og dreifa úr frákastshaugum.
Skipulag efnistöku og frágangur
Þar sem efnistaka fer fram í hrauni ætti að halda heildar yfirbragði svæða, eins og kostur er. Því þarf að huga vel að staðsetningu námusvæða bæði með tilliti til innsýnar og þess hvaða hlutum hrauns á að raska. Það sama myndi gilda um efnistöku í ógrónum (úfnum) nútímahraunum, en efnistaka þar er þó slæmur valkostur vegna verndargildis hraunanna og ætti að forðast efnistöku þar.
Við efnistöku í hrauni ætti almennt að reyna að taka eins mikið efni á hverjum stað og mögulegt er. Æskilegast er því að vinna hraunnámur niður úr hraunlaginu. Þegar gjallkarga á yfirborði sleppir er slík vinnsla með sömu aðferðum og önnur vinnsla í bergi, þ.e. efni er losað með sprengiefni eða fleygað og ýmist nýtt sem grjót eða malað í þær stærðir sem þörf er á hverju sinni.
Mikilvægt er að frágangur sé hluti vinnslu. Jarðvegsmyndun í hrauni og gróðurfar eru þeir þættir sem ráða mestu um möguleika á frágangi hraunnáma.
Flokka má hraunin með eftirfarandi hætti:
- Mjög sandorpin hraun, gróin (Dæmi: Þjórsárhraun í byggð).
- Sandfyllt hraun, misgróin (Dæmi: Hraun frá Heiðinni há við Þorlákshöfn).
- Mosavaxin hraun, lítil jarðvegsmyndun (Dæmi: Eldhraun í Skaftárhreppi).
- Lítt eða ógróin hraun (Dæmi: Ung hraun og flest hraun á hálendi).
Efnistaka og frágangur hrauna sem falla undir fyrsta og annan lið getur verið nánast með sama hætti og þegar um námur í seti er að ræða vegna þess jarðvegs sem fyrir hendi er til frágangs. Mosavaxin hraun eru viðkvæmust þar sem allt rask getur verið sýnilegt í mjög langan tíma.
Frágangur gamalla námusvæða í hrauni og gígum
Hérlendis hefur lítið verið reynt að ganga frá efnistökusvæðum í hrauni og gígum þar sem markmiðið hefur verið að fella efnistökusvæði að óröskuðu umhverfi og jafnframt að skapa skilyrði fyrir landnámi mosa. Gjallkarginn á yfirborðinu er stökkur og molnar auðveldlega við umferð vinnuvéla. Yfirborð verður því oft það laust og óstöðugt að mosi nær ekki að nema land. Því getur í sumum tilvikum orkað tvímælis að reyna að lagfæra þessar jarðmyndanir þar sem þung tæki gætu raskað yfirborði enn frekar.
Vaxtarhraði mosa er mjög mismunandi eftir aðstæðum. Við bestu skilyrði t.d. í Eldhrauni getur mosi numið land á röskuðum svæðum á 10-15 árum. Sambærileg framvinda á öðrum stöðum getur tekið 50 til 100 ár, t.d. á ýmsum stöðum á Hellisheiði. Ljóst er að sýna verður talsverða biðlund þegar kemur að endurheimt mosa á námusvæðum. Þetta þarf að hafa hugfast þegar ráðist er í lagfæringar jarðmyndana og endurheimt grenndargróðurs.
Gígar sem raskað hefur verið geta verið áhugaverðir frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Oft hefur efni verið tekið inn að gosrás þar sem efnistöku hefur verið hætt. Ólíkar hugmyndir hafa verið settar fram um hvernig ætti að fara með gíga sem skertir hafa verið við efnistöku, m.a. að fjarlægja beri suma þeirra með öllu. Hér verður því haldið fram að ekki sé æskilegt að fjarlægja skerta gíga nema að vel athuguðu máli. Rask því samfara gæti orðið meira en ef gígarnir fá að standa auk þess sem áhrif á svipmót viðkomandi svæða gætu orðið neikvæð. Auk þessa er æskilegt að skilja eftir ummerki um gíginn sem sjáanlegar minjar um það hvaðan „hraunið rann sem vér nú stöndum á“.
Í Litlu-Eldborg undir Geitahlíð á Reykjanesi lauk efnistöku úr vestasta hluta gígaraðarinnar um 1990. Efni var ýtt að gosrásum og reynt að fella svæðið að umhverfi eins og kostur er. Mosi var farinn að nema land 20 árum síðar og raskaði hluti gíganna gæti með tíð og tíma fallið vel að óröskuðum hluta þeirra. Hafa verður í huga að gerð og stöðugleiki yfirborðs hefur mikil áhrif á vaxtarskilyrði mosa. Fínn óstöðugur mulningur hindrar nánast landnám mosa, en hrjúft yfirborð fellur vel að útliti hrauns og auðveldar staðargróðri að nema land.