Efnistaka úr ám
Efnistaka úr ám getur meðal annars haft áhrif á fiskigengd og aðstæður til veiði.
Röskun í og við veiðivatn
Í lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 segir í 33. gr. „Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Fiskistofu“. Lögin fela því í sér að ekki skuli raska landi 100 m frá ám og stöðuvötnum eða botni þeirra sjálfra. Ef einhver telur sig á hinn bóginn þurfa að raska landi við eða í veiðivötnunum sjálfum þá þurfi að fara í gegnum leyfisferli sem nánar er lýst í lögunum.
Við setningu nýrra laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, voru ákvæði eldri náttúruverndarlaga um nám jarðefna færð í skipulagslög, nr. 123/2010, og lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Nokkrar undanþágur til bráðabirgða voru um eldri námur í gömlu náttúruverndarlögunum, en hluti af þeim féll úr gildi árið 2008 og annað féll úr gildi 1. júlí 2012. Eldri námur verða því að fara í gegnum sama leyfisferli og nýr námustaður. Það hefur því átt sér stað mikil viðhorfsbreyting gagnvart efnisnámi í og við veiðivötn hin síðari ár sem endurspeglast í lögum sem fjalla um slíkar framkvæmdir. Upplýsingar um umfang malartekju úr ám eru takmarkaðar. Lausleg könnun á umfangi fór fram fyrir tímabilið 2002-2008 og var þá vitað um 80 vatnsföll þar sem möl hafði verið tekin (Þórólfur Antonsson o.fl. 2008). Möl úr ám hefur þótt ákjósanleg til ýmiskonar notkunar s.s. til uppfyllinga í húsgrunna, steypuefni og undirlag í slóða og vegi.
Efnistaka úr ám
Lífríki í ám
Lífríki í ám er mjög tengt botngerð, straumhraða, næringarefnainnihaldi vatnsins, ljósmagni og hitafari. Efnistaka úr ám hefur áhrif á tvo fyrst töldu þættina. Líkt og í öðrum vistkerfum hefst lífkeðjan á frumframleiðni þörunga eða niðurbroti á aðkomnu lífrænu efni. Síðan koma til smádýr sem nýta sér þessi lífrænu efni. Hér á landi eru lirfur bitmýs, rykmýs og vorflugna algengustu tegundir smádýra í ám, auk vatnabobba, ána og vatnamaura sem einnig eru útbreiddir í straumvatni (Helgi Hallgrímsson 1979). Seiði fiska nærast síðan á smádýrunum. Laxfiskar, lax, urriði og bleikja eru ríkjandi tegundir fiska í straumvatni.
Botngerð og búsvæði
Grófleiki botnsins hefur mikið að segja um hve framleiðslan er mikil. Samhengi er á milli grófleika botns, halla lands og straumhraða (sjá mynd hér til hliðar). Þar sem straumhraði er lítill sest að leir og sandur en í mesta straumhraðanum helst ekkert laust efni við og klöppin ein stendur eftir. Í grófri möl og smágrýti (um 5-20 cm þvermál steina) er framleiðsla hvað mest og straumhraði hæfilegur fyrir margar lífverur. Eftir því sem botninn er „flóknari“er yfirborðsflötur meiri sem aftur eykur framleiðslu, auk þess að mynda skjól fyrir lífverur t.d. seiði laxfiska. Ásókn er hvað mest einmitt í þetta efni til mannvirkjagerðar, en það er einkum að finna á eyrasvæðum ánna (sjá mynd hér á síðunni sem sýnir skiptingu vatnsfalla). Laxfiskar hrygna á haustin á tímabilinu september til nóvember. Lax og urriði eru alfarið háðir straumvatni til hrygningar. Lax velur sér hrygningarstaði m.t.t. heppilegs straumhraða á malarbotni með kornastærð 2 – 7cm. Hrygnur grafa riðaholur í mölina og sópa síðan möl yfir hrognin eftir frjóvgun þeirra. Hrognin klekjast út að vori, seiðin leita síðan upp úr mölinni, taka æti og helga sér óðal. Laxaseiðin halda sig í ferskvatni í 2 – 5 ár fram að því að þau ganga til sjávar. Seiðin er einkum að finna á búsvæðum þar sem botninn er sambland af möl, smágrýti og stórgrýti. Smæstu og yngstu seiðin velja sér minni straum og botn sem einkennist af möl eða smágrýti en eftir því sem seiðin stækka og eldast færa seiðin sig í stríðari straum á grófara og stórgrýttara undirlag.
Nokkur munur er á búsvæðavali laxfiska í ánum. Bleikjuseiði finnast gjarnan á straumlitlum köflum á fíngerðum botni. Urriðaseiði finnast í meiri straumi og á heldur grófari botni, en laxaseiði geta nýtt sér enn meiri straumhraða en fyrrnefndu tegundirnar. Bleikju er einkum að finna í hrjóstrugum og köldum ám, en lax í frjósömustu og hlýjustu ánum meðan urriðinn skipar sér þar inn á milli. Bestu hrygningarsvæðin og mesta þéttleika laxfiskaseiða í ám er gjarnan að finna á búsvæðum, sem einkum er sótt í til efnistöku.
Við fyrstu sýn eru seiði á botni ekki greinileg mönnum. Með rannsóknum með viðeigandi tækjum hefur komið fram að þéttleiki seiða getur numið tugum seiða á hverja 100 fermetra botnflatar og að um marga árganga seiða getur verið að ræða. Seiðin verða síðan undirstaða veiðinýtingar.
Áhrif efnistöku
Það að taka efni úr ám hefur með beinum hætti áhrif á þær lífverur sem fyrir eru á námasvæðinu. Straumhraði minnkar á því svæði sem efni er tekið af. Frumframleiðsla minnkar og skjól fyrir stærri dýr rýrnar. Ofan við efnistökustaðinn eykst á hinn bóginn straumhraði vegna aukins hæðarmismunar. Þar með fer laust efni af stað og leitar niður í gryfjurnar. Efnisskriðið hefur áhrif á lífríki á því svæði. Í verstu tilvikum situr aðeins eftir stórgrýti eða klöppin ein. Áhrif þessa geta náð langt upp fyrir efnistökusvæðið.
Sama gildir í raun um efnistöku nærri árfarvegi. Ef áin nær í efnistökustaðinn, sem gerist fyrr eða síðar, verða áhrif þau sömu og að framan er lýst auk þess sem farvegur árinnar breytist og sá gamli fer á þurrt. Þannig þarf að taka tillit til mismunandi árstíða og mismunandi rennslismynsturs áa þegar um efnistöku er að ræða nærri árfarvegum.
Áhrif eftir árgerðum og tíma framkvæmda
Miklu skiptir í hvers konar vatnsföllum námuvinnsla á sér stað, því ár eru mjög misjafnar hvað varðar vistgerð og lífauðgi. Meginreglan er sú að forðast malartekju í og við ár. Meta þarf aðra kosti til efnistöku áður en efni er tekið úr vatnsföllum. Með þeirri tækni sem til er nú, eru möguleikar til efnistöku meiri en áður. Tímasetning og tímalengd efnistöku skiptir líka máli. Efnistaka á takmörkuðum tíma á einu svæði er minna inngrip en árleg efnistaka vegna þarfa þéttbýlis fyrir efni. Slík efnisþörf hlýtur að kalla á aðrar og varanlegri lausnir. Vegna stöðugs framburðar áa í áranna rás er í sumum tilfellum mögulegt að taka efni úr áreyrum og aurkeilum sem hafa hlaðist upp og eru mestan hluta árs á þurru, án þess að varanlegur skaði hljótist af fyrir lífríki. Eins myndast gjarnan eyrasvæði neðan við brött gil. Þá skiptir máli hvar í ánum er borið niður. Þetta þarf að meta og útfæra í hverju tilviki fyrir sig. Bent er á að veiðinýting í ám er afar verðmæt auðlind fyrir handhafa veiðiréttar. Efnistaka í ám getur haft áhrif á framleiðslu ánna og einnig er þekkt að efnistaka getur leitt til breytinga á farvegum m.a. á veiðistöðum. Veiði í ám er einn af þeim meginþáttum sem liggja til grundvallar verðmætamats á veiði og því áríðandi að efnistaka spilli hvorki uppeldisskilyrðum né aðstöðu til veiða. Það er einnig grundvallarregla að ef einhver veldur öðrum tjóni ber viðkomandi að bæta skaðann. Í tilfellum efnistöku úr ám getur mat á áhrifum jafnframt verið tímafrekt og kostnaðarsamt.
Auk malartekju eiga sér stað aðrar framkvæmdir í ám og vötnum. Þar þarf einnig að fara að með gát t.d. hvað varðar ræsa- og brúargerð. Sýnt hefur verið fram á að slíkar framkvæmdir hafa oft neikvæð áhrif á framleiðslu fiskstofna og veiði (Guðmundur Ingi Guðbrandsson og fleiri 2005). Afar brýnt er að tekið sé tillit til þessa við staðsetningu og hönnun mannvirkja.