Efnistaka af hafsbotni
Nokkuð er um að efni sé sótt á sjávarbotn vegna ýmissa framkvæmda hér á landi. Stórvirkasta efnistakan í sjó fer fram við SV-horn landsins, einkum í Faxaflóa. Þar eru tekin sandur og möl sem notuð eru sem byggingarefni. Víðar kringum landið hefur verið tekið efni úr sjó til sérstakra framkvæmda, einkum hafnargerðar. Þá hafa hafnir víða um land verið dýpkaðar og efni, sem þannig leggst til, verið flutt út fyrir hafnarsvæðin á nýja staði. Á síðustu árum hefur einnig komið til efnistaka úr sjó vegna iðnaðar t.d. vegna kalkþörungavinnslu. Hingað til hefur efni á sjávarbotni einkum verið tekið á grunnsævi.
Öll efnistaka á sjávarbotni hefur í för með sér röskun. Hún getur haft áhrif á jarðmyndanir í sjó, á búsvæði dýra eða dýrasamfélaga og á búsvæði og hrygningarsvæði fiska. Slík röskun getur valdið langtíma- eða skammtímabreytingum á umhverfi. Sjávarbotn, þar sem sjávarstraumar eru litlir og ölduhreyfing lítil, er að öllu jöfnu viðkvæmari fyrir raski en sjávarbotn þar sem straumar eru miklir og ölduhreyfing mikil.
Set í sjó
- Að aflað sé upplýsinga um jarðlög á námusvæði og næsta nágrenni þess, þ.e. útbreiðslu, gerð og innihald þeirra fyrir efnisnám. Síðan þarf að athuga aðstæður að námi loknu. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef um mikla efnistöku er að ræða.
- Að takmarka sem mest flatarmál þess svæðis sem efnið er tekið af en fara frekar dýpra á hverjum stað ef aðstæður leyfa.
- Gæta þarf þess að raska ekki sérstökum eða sjaldgæfum jarðmyndunum.
- Við efnistöku nærri landi getur orðið breyting á straumum, ölduhreyfingu og umhverfi á stærra svæði en efnistakan fer fram á. Slíkt getur m.a. leitt til breytinga á búsvæði lífvera á stærra svæði en upphaflega var áætlað.
Búsvæði sjávar
Efnistaka af hafsbotni getur haft áhrif á botnlögun og gerð, líf strandsvæða, fiskveiðar, vistkerfi sjávar, fornminjar og fleira. Þar sem fyrir liggur takmörkuð þekking á lífríki og búsvæðum sjávarbotns á grunnsævi við Ísland ber að fara sérstaklega varlega þegar fjallað er um ný námuleyfi.
Botndýr og botndýrasamfélög
Á síðari árum hafa verið gerðar staðbundnar rannsóknir á botnlífi á grunnsævi við Ísland, á vegum Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands. Þó er ekki fyrir hendi víðtæk þekking á botngerð og botndýralífi við strendur landsins, sem nýtist t.d. við mat á áhrifum efnistöku á búsvæði og lífverur. Myndirnar hér á síðunni sýna dæmi um botndýralíf.
Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna vinnur að kortlagningu búsvæða sjávar við Ísland og flokkun þeirra. Niðurstöður þeirra rannsókna munu m.a. nýtast til þess að staðsetja mikilvæg búsvæði og meta verðmæti búsvæða, byggt á útbreiðslu þeirra og tegundum sem nýta þau. Áhrif efnistöku á lífríki koma fram í umróti og brottnámi lífvera á botni og breyttum skilyrðum fyrir landnámi þeirra, vegna þess að botngerð hefur breyst. Þetta getur haft þýðingu varðandi gildi sjávarbotns sem ætis- eða búsvæðis botnfiska.
Eftirfarandi atriði þarf að hafa í huga varðandi botndýrasamfélög við efnistöku af hafsbotni:
- Flest svæði við Ísland eru lítið þekkt og aðeins fáein svæði eru vel þekkt. Ef nægjanleg þekking liggur ekki fyrir þarf að gera forkönnun á svæðum. Að efnistöku lokinni þarf hugsanlega einnig að gera könnun til að meta áhrif efnistökunnar.
- Umfang búsvæðagerða er mikilvægur þáttur sem þarf að skoða þegar efnistökusvæði eru valin og efnistökumagn ákveðið.
- Gæta verður að viðkvæmum og mikilvægum búsvæðum dýra og/eða dýrasamfélaga.
- Svæði þar sem kröftugir straumar og hreyfing er viðvarandi eru talin minna viðkvæm fyrir raski.
- Frágangur að lokinni námuvinnslu skal taka mið af því að svæðið eigi sem besta möguleika á að endurnýjast.
Fiskar
Fáar fisktegundir, sem halda sig við hafsbotninn, eru í bráðri hættu vegna efnistöku, því flestar forða sér þegar hætta steðjar að. Þó eru nokkrar tegundir sem geta orðið fyrir röskun við efnisnám, vegna breytinga á búsvæði þeirra. Það eru sérstaklega tegundir sem lifa í botni eða hrygna botnlægum eggjum. Þá er hugsanlegt að hrygningarsvæði ákveðinna fisktegunda geti skaðast til lengri tíma litið við efnisnám á botni. Dæmi um fiska sem halda sig á malar- og sandbotni eru sandkoli, þykkvalúra, skarkoli, síli (sand-, mar- og trönusíli) og tindaskata. Margar aðrar tegundir finnast á slíkum svæðum en eru ekki eins algengar. Nokkrar fisktegundir hrygna á sand- og malarbotni og eru hrogn þeirra föst við botn meðan þau klekjast út. Þær eru loðna, síld, steinbítur, hlýri og hrognkelsi.
Eftirfarandi atriði þarf að hafa í huga varðandi fiska og hrygningu þeirra við efnistöku af hafsbotni:
- Að forðast þekkt hrygningarsvæði fiska, sérstaklega á þeim tíma sem hrygning á sér stað.
- Að forðast góð veiðisvæði. Kanna aflaskýrslur síðustu ára til að kanna hvort væntanlegt námusvæði sé mikilvægt veiðisvæði.
Strandrof
Þegar efni er tekið af hafsbotni nærri landi verður að kanna hvort mögulegt sé að efnistakan hafi áhrif á nálægar strendur og fjörur. Þessi áhrif geta verið með ýmsum hætti.
Efnistaka úr þeim hluta sjávarkambs sem nær niður á hafsbotn getur leitt til þess að efni skolist úr fjöru niður í gryfjur neðan sjávarmáls. Efnistaka getur haft áhrif á öldufar og afl öldunnar þegar hún brotnar í aðliggjandi fjörum. Efnistaka getur einnig dregið úr skjóláhrifum hafsbotns þegar sjávardýpi eykst vegna efnistöku.
Fornminjar
Huga verður að því að engin skipsflök, hlutar úr þeim eða aðrar fornleifar finnist á fyrirhuguðum efnistökusvæðum á hafsbotni. Ef vart verður við skipsflök eða hluta úr þeim eða aðrar fornleifar við efnistöku af hafsbotni skal tilkynna slíkt til Minjastofnunar Íslands, þar eð skipsflök eða hlutar úr þeim teljast til fornleifa skv. 3. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar.
Fjölgeislamælingar af námum á hafsbotni
Á vegum sjómælingasviðs Landhelgisgæslu Íslands hafa verið gerðar fjölgeislamælingar af hafsbotni, meðal annars í Kollafirði á árinu 2002 og í Hvalfirði árið 2010. Á kortum sem unnin eru út frá þessum fjölgeislamælingum sjást vel þau svæði þar sem efni hefur verið tekið af hafsbotni, en töluverð efnistaka af hafsbotni hefur farið fram bæði í Kollafirði og Hvalfirði. Hér til hliðar er sýnd yfirlitsmynd yfir efnistökusvæðin í austanverðum Kollafirði sem unnin er út frá fjölgeislamælingunum sem gerðar voru árið 2002.
Hér er að sjá mynd sem sýnir hafsbotninn umhverfis Lundey í Kollafirði. Á myndinni sjást vel þau svæði við eyna þar sem efni hefur verið tekið af hafsbotni.