Starfsleyfi
Í sumum tilfellum þarf starfsleyfi fyrir efnistöku eða námuvinnslu, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Sótt er um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar sveitarfélags, sem vinnur tillögu að starfsleyfi og má sækja um það samhliða framkvæmdaleyfi.
Sækja verður um starfsleyfi með fyrirvara og leggja fram tilskilin gögn um framkvæmdina. Í töflunni hér fyrir neðan er yfirlit um gögn sem almennt þarf að leggja fram til heilbrigðisnefndar þegar sótt er um starfsleyfi fyrir efnistöku, sbr. einnig 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Heimilt er að leggja fram fyrirliggjandi gögn sem unnin voru til að uppfylla ákvæði laga og reglugerða um mat á umhverfisáhrifum, reglugerða um hættumat í iðnaðarstarfsemi eða annarra viðeigandi reglna. Mælt er með að starfsleyfistillaga sé unnin samhliða mati á umhverfisáhrifum ef um er að ræða efnistöku sem fellur undir lög um mat á umhverfisáhrifum.
Við gerð tillögu að starfsleyfi skal heilbrigðisnefnd leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar, Vinnueftirlitsins, frjálsra félagasamtaka og annarra sérfróðra aðila, eftir því sem við á hverju sinni.
Eftirlit með því að farið sé að kröfum og skilyrðum í starfsleyfi vegna efnistöku er í höndum heilbrigðisnefndar. Viðkomandi heilbrigðisnefnd veitir frekari upplýsingar um gerð og útgáfu starfsleyfis vegna efnistöku. Ef spilliefni sem notuð eru eða falla til við námuvinnsluna eru meðhöndluð á staðnum þarf að afla starfsleyfis hjá Umhverfisstofnun, sbr. lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.