Skipulag
Skipulagsskylda nær til lands og hafs innan marka sveitarfélaga og framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, t.d. efnistaka, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Í skipulagsáætlunum er mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun, þ.m.t. um náttúruvernd, landslag og efnistöku (sjá nánar í skipulagslögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013).
Núverandi efnistaka og efnislosun, þ.e. losun hreinna og ómengaðra jarðefna og jafnframt hvernig fyrirkomulagi á urðun úrgangs er háttað. Helstu einkenni svæðanna og vinnslu sem þar fer fram. Stefna um efnistöku, efnislosun og urðun úrgangs, þ.e. flatarmál og efnisrúmmál allra efnistöku-, efnislosunar- og sorpurðunarstaða og eftir því sem þörf er á, tegund efnis, tímalengd vinnslu, tengd mannvirkjagerð, notkun svæða að vinnslu lokinni og annað sem þörf er á fyrir gerð deiliskipulags.
Við gerð deiliskipulags skal, þar sem gert er ráð fyrir verulegum breytingum á landi, svo sem vegna varnargarða, landfyllinga, efnislosunar, efnistöku eða urðunar, gera grein fyrir umfangi svæðis, áfangaskiptingu og tímaáætlun, efnismagni sem fjarlægt er, fært til eða bætt er við. Gera skal grein fyrir landmótun, hæðarsetningum og frágangi að framkvæmdatíma loknum.
Þegar efnistaka er undirbúin er nauðsynlegt að skoða skipulagsáætlanir (svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir) sem kunna að vera til af svæðinu, enda á efnistaka bæði að vera í samræmi við stefnumörkun í aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags og deiliskipulag. Sveitarstjórn er þó heimilt að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku á grundvelli aðalskipulags, ef í aðalskipulaginu er gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað er á ítarlegan hátt um umfang efnistöku, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað það sem við á. Sveitarstjórn getur einnig veitt framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku, án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar sbr. gr. 5.11.1 í skipulagsreglugerð.
Ef efnistakan er það umfangsmikil að hún fellur undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana þarf þó alltaf að gera deiliskipulag fyrir svæðið nema ítarlega sé gerð grein fyrir efnistökunni og umhverfismati hennar í aðalskipulagi.
Við gerð skipulagsáætlana og breytingar á þeim og við aðra málsmeðferð umsókna um framkvæmdaleyfi eftir atvikum skal hafa samráð við íbúa viðkomandi sveitarfélags og aðra hagsmunaðila. Við gerð skipulagsáætlana skal gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Þegar framkvæmd sem er háð umhverfismati framkvæmdar kallar jafnframt á skipulagsgerð á grundvelli skipulagslaga er sveitarstjórn heimilt, í samráði við framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun, að sameina skýrslugerð um skipulagstillöguna og umhverfismat hennar og skýrslugerð um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum (sjá nánar í skipulagslögum nr. 123/2010 og lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana).
Nánari upplýsingar um skipulagsáætlanir og málsmeðferð fást hjá viðkomandi sveitarfélagi og Skipulagsstofnun.
Uppfært 17. nóvember 2022