Önnur leyfi
Ávallt er nauðsynlegt að leita leyfis landeigenda til efnistöku á landareign þeirra. Auk framkvæmdaleyfis getur þurft að afla annarra leyfa eftir atvikum, s.s. nýtingarleyfi Orkustofnunar eða leyfis Umhverfisstofnunar vegna efnistöku á friðlýstum svæðum.
Öll nýting úr jörðu er háð nýtingarleyfi Orkustofnunar, samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þetta á við um nýtingu auðlinda í eignarlöndum, svo sem á jarðeignum ríkisins (ríkisjörðum) og í þjóðlendum með mikilvægri undantekningu þó. Undantekningin nær til einkaeignarlands þar sem landeiganda er heimilt án leyfis að rannsaka og hagnýta á eignarlandi sínu berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand. Landeiganda eða öðrum sem hann semur við er heimilt að nýta þessi jarðefni án nýtingarleyfis Orkustofnunar.
Vegna efnistöku á þjóðlendum eða ríkisjörðum þarf Orkustofnun fyrst að gefa út rannsóknarleyfi. Nýtingarleyfi er síðar gefið út á grundvelli rannsóknanna. Áður en nýtingarleyfi er gefið út þarf sá sem fer með forræði yfir efnistökusvæðinu að veita heimild til nýtingar þess og ákveða endurgjald fyrir nýtinguna. Að því er varðar nýtingu jarðefna á ríkisjörðum, þarf samning við þann aðila sem fer með eignina og hefur rétt til nýtingar þessara hlunninda. Í flestum tilfellum er það atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, en getur verið forsætisráðherra eða annar opinber aðili. Vegna þjóðlendna er það forsætisráðherra sem veitir heimild til nýtingar. Þegar heimild hefur verið veitt til að nýta hlunnindin er Orkustofnun heimilt að gefa út nýtingarleyfið. Í nýtingarleyfi eru sett skilyrði vegna nýtingar sem m.a. taka tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum og annarra ákvæða sem fram hafa komið á fyrri stigum ferlisins og að teknu tilliti til annarra ákvæða laga og reglugerða eftir atvikum.
Leyfi forsætisráðherra þarf til að nýta námur og önnur jarðefni innan þjóðlendna sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Til að átta sig á hvort fyrirhuguð efnistaka er innan þjóðlendu eða ekki, er gagnlegt að miða við kort sem sýnir staðsetningu þjóðlendna samkvæmt úrskurðum óbyggðanefndar og/eða dómum dómstóla (sjá hér).
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs er leyfisveitandi ef taka þarf efni innan Vatnajökulþjóðgarðs og Þingvallanefnd vegna efnistöku innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Á öðrum
friðlýstum svæðum getur þurft leyfi Umhverfisstofnunar.
Afla verður leyfis Minjastofnunar Íslands ef hugsanlegt er að fornminjum verði spillt. Þá þarf leyfi Fiskistofu ef efnistaka hefur áhrif á fiskigengd eða lífríki veiðivatna.
Helstu aðilar sem geta komið að undirbúningi og leyfisveitingu vegna efnistöku og hlutverk þeirra