Mat á umhverfisáhrifum
Efnistaka fellur undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana ef raskað er efnistökustað yfir tiltekinni stærð, ef nema á efni umfram tiltekið magn, eða ef efnistakan er talin kunna að hafa umtalsverð áhrif í för með sér.
Markmið mats á umhverfisáhrifum
Efnistaka fellur undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana ef raskað er efnistökustað yfir tiltekinni stærð, ef nema á efni umfram tiltekið magn eða ef efnistakan er talin kunna að hafa umtalsverð áhrif í för með sér.
Markmið laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana er:
- sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skal að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif,
- skilvirkni við umhverfismat framkvæmda og áætlana,
- að almenningur hafi aðkomu að umhverfismati framkvæmda og áætlana og samvinna aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana.
Efnistaka sem fellur undir ákvæði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana skiptist í tvo flokka:
- Efnistöku sem ávallt er matsskyld samkvæmt lögum.
- Efnistöku sem kann að vera matsskyld og er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar.
Óheimilt er að veita leyfi fyrir efnistöku svo sem framkvæmdaleyfi eða starfsleyfi, nema að gengið sé úr skugga um að efnistakan sé ekki matsskyld, eða að undangengnu umhverfismati framkvæmdar ef efnistakan reynist matsskyld. Framkvæmdaraðili sér um að meta umhverfisáhrif framkvæmdar og ber allan kostnað af matinu, ásamt umfjöllun Skipulagsstofnunar.
Umhverfismat framkvæmda er ferli, þar sem gerð er grein fyrir framkvæmd og umhverfisáhrif hennar metin, áður en hafist er handa um framkvæmdir. Í þessu ferli er framkvæmdin kynnt almenningi, sveitarstjórnum og öðrum umsagnaraðilum, þannig að hægt sé að taka tillit til óska og/eða umsagna þeirra við hönnun framkvæmdar. Þegar umhverfisáhrif hafa verið metin af framkvæmdaraðila, er framkvæmdin ásamt niðurstöðum matsins kynnt í umhverfismatsskýrslu, sem send er Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun gefur síðan rökstutt álit um umhverfismat framkvæmdarinnar. Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir á að vera ljóst hver umhverfisáhrif framkvæmdar kunni að verða og hvaða leiðir verða notaðar til að draga úr þeim.
Sömu lög og forsendur gilda um umhverfismat fyrir efnistöku hvort sem er á landi eða af hafsbotni.
Efnistaka sem kann að vera matsskyld
Efnistaka sem fellur í flokk B í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og er metið í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort efnistakan skuli háð umhverfismati.
Framkvæmdaraðila ber að senda skriflega tilkynningu til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd sem fellur undir flokk B í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Efnistaka fellur í flokk B ef einhver neðangreindra atriða eiga við:
- Raskar 2,5 ha svæði eða stærra
- Er 50.000 m3 eða meiri
- Nær til samans yfir 2,5 ha svæði eða stærra ef um fleiri en einn efnistökustað er að ræða vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði
Framkvæmdaraðili þarf að senda Skipulagsstofnun eftirfarandi upplýsingar áður en stofnunin getur ákvarðað um matsskyldu efnistöku (sjá nánar 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana):
- Lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd í heild sinni, umfangi hennar og helstu framkvæmda- og rekstrarþáttum, þar með talið niðurrifi mannvirkja eftir því sem við á, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021.
- Hnitsettur uppdráttur sem sýnir staðsetningu fyrirhugaðrar framkvæmdar, mörk framkvæmdasvæðis og mannvirki sem fyrir eru á svæðinu.
- Upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum.
- Lýsing á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun, hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði er á eða nærri verndarsvæðum og lýsingu á þáttum í umhverfiinu sem líklegt er að verði umtalsvert fyrir áhrifum af framkvæmdinni, sbr. 2. og 3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021.
- Lýsing á þeim þáttum framkvæmdar og/eða rekstrar valda helst áhrifum á umhverfið, sbr. 1. og 3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021.
- Lýsing á líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, miðað við fyrirliggjandi vitneskju, sem stafa af losun eða úrgangi og nýtingu náttúruauðlinda, sérstaklega jarðvegs, lands, vatns og líffræðilegrar fjölbreytni, sbr. 2. viðauka laga nr. 111/2021.
- Upplýsingar um fyrirliggjandi umsagnir umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls.
- Upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, eftir því sem við á.
Vegna framkvæmda í flokki B í 1. viðauka við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana ákvarðar Skipulagsstofnun innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati. Áður en Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um matsskyldu leitar stofnunin álits leyfisveitenda og annarra eftir eðli máls hverju sinni.
Ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæruaðild hafa þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðuninni og umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga.
Efnistaka sem ávallt er matsskyld
Ávallt þarf að meta umhverfisáhrif ef áætluð efnistaka raskar 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira, sbr. framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Umhverfismati framkvæmda er skipt í nokkur skref og er þeim helstu lýst hér á eftir.
Matsáætlun
Þegar framkvæmdaraðili fyrirhugar matsskylda efnistöku skal hann gera matsáætlun og senda til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdarinnar og kostur er. Í áætluninni er því lýst með hvaða hætti framkvæmdaraðili hyggst leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdar og eiga þar meðal annars að koma fram upplýsingar um umfang og áherslur umhverfismats. Í áætluninni er því lýst með hvaða hætti framkvæmdaraðili hyggst leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdar og eiga þar meðal annars að koma fram upplýsingar um umfang og áherslur umhverfismats. Nánar er fjallað um innihald matsáætlunar í 11. grein reglugerðar um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þegar Skipulagsstofnun hefur borist matsáætlun framkvæmdaraðila kynnir stofnunin áætlunina fyrir almenningi og leitar samhliða umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, s.s. leyfisveitenda.
Álit um matsáætlun
Skipulagsstofnun kynnir framkvæmdaraðila álit sitt um matsáætlun innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast. Álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun skal fela í sér leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu, m.a. með hliðsjón af umsögnum um matáætlunina. Framkvæmdaraðili skal leggja álitið til grundvallar við umhverfismat framkvæmdarinnar.
Umhverfismatsskýrsla
Í umhverfismatsskýrslu er fjallað um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og niðurstöður þess mats. Ef um er að ræða framkvæmdir sem eru háðar efnistöku, s.s. vegi eða lagningu háspennulína, þarf mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru vegna mats á umhverfisáhrifum einstaks efnistökusvæðis. Umhverfismatsskýrsla þarf að vera í samræmi við samþykkta matsáætlun og álit Skipulagsstofnunar og kröfur í 15. grein reglugerðar um umhverfismat framkvæmda og áætlana um innihald hennar. Þegar umhverfismatsskýrsla liggur fyrir er hún send Skipulagsstofnun til kynningar og athugunar. Skipulagsstofnun kynnir fyrirhugaða framkvæmd og umhverfismatsskýrslu og er almenningi heimilt að gera athugasemdir við skýrsluna. Kynningartími umhverfismatsskýrslu er sex vikur. Skipulagsstofnun leitar einnig umsagnar leyfisveitenda og annarra aðila eftir því sem við á.
Skipulagsstofnun getur farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn enda sé framlagning þeirra gagna nauðsynleg til að komast megi að niðurstöðu um umhverfismat framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun er einnig heimilt að hafna því að taka umhverfismatsskýrslu til kynningar og athugunar ef hún uppfyllir ekki skilyrði 22. gr. laga umhverfismat framkvæmda og áætlana og skal þá stofnunin leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu hennar.
Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar
Skipulagsstofnun gefur rökstutt álit á því hvort umhverfismatsskýrsla uppfylli skilyrði laga og reglugerða og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt innan sjö vikna frá því að kynningu á umhverfismatsskýrslu lýkur. Í álitinu gerir Skipulagsstofnun grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Einnig er þar fjallað um afgreiðslu framkvæmdaraðila á athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á umhverfismatsskýrslunni. Í álitinu er jafnframt tilgreint hvort Skipulagsstofnun telji þörf á að setja frekari skilyrði fyrir framkvæmd eða gera aðrar og frekari mótvægisaðgerðir en þær sem fram koma í skýrslunni. Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir er það kynnt framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, ásamt þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við umhverfismatsskýrsluna á kynningartíma.
Óheimilt er að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar liggur fyrir. Leyfisveitandi skal kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat hennar til grundvallar. Ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis, vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar, skal leyfisveitandi birta opinberlega innan tveggja vikna frá útgáfu leyfisins. Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis fyrir matsskyldar framkvæmdir er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, innan mánaðar frá því að ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis liggur fyrir. Leyfisveitendur skulu senda Skipulagsstofnun afrit leyfa vegna matsskyldra framkvæmda þegar leyfi hefur verið gefið út.
Ef framkvæmdir hefjast ekki innan 10 ára frá því að álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir skal leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdar að hluta eða í heild sinni.
Á myndinni hér fyrir neðan eru sýnd helstu skref við umhverfismat framkvæmda. (Hægt er að fá upp stærri mynd með því að smella á myndina.)
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um umhverfismat framkvæmda er að finna í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, reglugerð nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmda, sem nálgast má á heimasíðu stofnunarinnar (www.skipulagsstofnun.is). Skipulagsstofnun veitir einnig frekari upplýsingar um umhverfismat framkvæmda.
Uppfært 29. desember 2022