Reglugerðir
Hér er að finna yfirlit yfir helstu reglugerðir er varða efnistöku
Skipulagsreglugerð nr. 90/2013
Markmið reglugerðarinnar eru:
- að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi,
- að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,
- að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi,
- að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana,
- að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar við gerð skipulagsáætlana varðandi útlit bygginga og form og aðgengi fyrir alla.
Reglugerðin nær til landsins alls og hafs innan sveitarfélagamarka. Í henni er að finna ákvæði um gerð skipulagsáætlana, meðferð og framsetningu þeirra ásamt grenndarkynningu og veitingu meðmæla með framkvæmda- og byggingarleyfum þar sem skipulag liggur ekki fyrir. Helstu leitarorð: Efnistaka, efnislosun, urðun úrgangs, skipulagsskilmálar, framkvæmdaleyfi, gögn
Reglugerð nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana
Reglugerðin gildir um umhverfismat framkvæmda og áætlana og breytinga á áætlunum sem falla undir ákvæði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd fari fram umhverfismat sem samræmist markmiðum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Í reglugerðinni eru nánari ákvæði um framkvæmd laga nr. 111/2021, þar með talið um tilkynningar um framkvæmdir, framsetningu matsáætlunar, umhverfismatsskýrslu og gögn, samráðsferlið, aðgang almennings að gögnum, kynningu á framkvæmd og álitum, framlagningu frekari gagna, samþættingu skýrslugerðar og umsóknar um starfs- og rekstarleyfi, auk eftirlits.
Helstu leitarorð: Efnistaka, matsskyldar framkvæmdir, tilkynningarskyldar framkvæmdir, matsáætlun, umhverfismatsskýrsla
Reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi
Reglugerðin gildir um framkvæmdaleyfi vegna meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Markmið reglugerðarinnar er að:
- stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarminja og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,
- tryggja faglegan undirbúning við útgáfu framkvæmdaleyfa og koma á samræmdu ferli vegna umsókna um framkvæmdaleyfi,
- tryggja að leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir og mat á umhverfisáhrifum
- tryggja að virkt eftirlit sé með því að framkvæmdir séu ekki hafnar án leyfis og að þær séu í samræmi við útgefin leyfi.
Framkvæmdir sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi eru meðal annars efnistaka á landi, úr ám, vötnum og af eða úr hafsbotni innan netlaga, breytingar á árfarvegi og breytingar lands með jarðvegi svo sem efnislosun, landmótun (t.d. manir) og landfyllingar. Sækja skal um framkvæmdaleyfi með skriflegri umsókn til hlutaðeigandi leyfisveitanda ásamt nauðsynlegum gögnum um fyrirhugaða framkvæmd.
Helstu leitarorð: Framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi, umsókn, gögn, framkvæmdaleyfi
Reglugerð nr. 1000/2011 um námuúrgangsstaði
Námuúrgangsstaður er staður í námu þar sem spilliefni sem notuð eru eða til falla við námuvinnsluna eru meðhöndluð sem úrgangur. Námuúrgangsstaður skal hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir.
Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á umhverfið, einkum á vatn, andrúmsloft, jarðveg, plöntur, dýr og landslag, af völdum meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaði.
Fyrir námuúrgangsstaði sem flokkast sem hættulegur skal rekstraraðili staðarins gera viðbragðsáætlun vegna hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna og setja fram aðgengilegar upplýsingar um þá hættu.
Rekstraraðili skal án tafar og í öllum tilvikum innan 48 klukkustunda, tilkynna Umhverfisstofnun um alla atburði sem líklegt er að hafi áhrif á stöðugleika námuúrgangsstaðarins. Einnig um sérhver skaðleg áhrif á umhverfið, sem teljast veruleg og koma í ljós við eftirlit og vöktun, og hlíta ákvörðun Umhverfisstofnunar um eðli og tímasetningu þeirra aðgerða til úrbóta sem grípa ber til. Þær aðgerðir skulu vera á kostnað rekstraraðilans.
Helstu leitarorð: Starfsleyfi, úrgangsáætlun, viðbragðsáætlun
Reglugerð nr. 724/2008 um hávaða
Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða.
Reglugerð þessi tekur til hávaða af mannavöldum, ekki þó til hávaða frá neyðarstarfsemi. Í reglugerðinni eru m.a. viðmiðunargildi og leiðbeiningarmörk fyrir hljóðstig frá umferð og atvinnustarfsemi.
Við framkvæmdir t.d námuvinnslu skal sérstaklega að því gætt að sem minnst ónæði verði af völdum hávaða.
Þegar námurétthafi stendur fyrir námuvinnslu í nágrenni við þéttbýli skal hann kynna framkvæmdina fyrir íbúum nærliggjandi svæða með sannarlegum hætti áður en framkvæmd hefst. Fram skal koma tímalengd framkvæmdar, hvaða þættir hennar séu líklegir til að valda ónæði og hvenær unnið verði að þeim þáttum.
Námurétthafa er skylt að gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir óþægindi af völdum hávaða.
Helstu leitarorð: Hljóðstig, framkvæmdir, mörk fyrir hávaða
Reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit
Markmið reglugerðarinnar er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Jafnframt er markmið reglugerðarinnar að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og að koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið.
Atvinnurekstur er skilgreindur sem hvers konar starfsemi og framkvæmdir.
Óheimilt er að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur án þess að starfsleyfi hafi verið gefið út. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga veita starfsleyfi til vinnslu jarðefna sbr. X. viðauka reglugerðarinnar.
Umsókn um starfsleyfi skal senda hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd. Með umsóknum skulu fylgja upplýsingar um atvinnureksturinn eins og krafist er í reglugerðinni og öðrum reglum sem gilda um viðkomandi atvinnurekstur.
Helstu leitarorð: Vinnsla jarðefna, starfsleyfi, atvinnurekstur
Reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs
Reglugerðin gildir almennt um alla meðhöndlun úrgangs en hún fjallar ekki um förgun hans þar eð þar gilda reglugerðir um urðun og brennslu úrgangs.
Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með meðhöndlun á úrgangi. Þær veita einnig starfsleyfi fyrir starfsemi þar sem úrgangur er meðhöndlaður. Það er hins vegar í verkahring hverrar sveitarstjórnar að sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn getur sett skilyrði um meðferð úrgangs hjá námurétthafa. Námurétthafi skal draga eins og unnt er úr myndun úrgangs. Stefnt skal að endurnotkun og endurnýtingu hans svo sem kostur er. Námurétthafi skal færa allan úrgang til meðhöndlunar í söfnunar- og móttökustöð. Meðferð úrgangs skal vera þannig að óþrifnaður og óþægindi stafi ekki af.
Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang þannig að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.
Ekki má brenna úrgang. Hafi úrgangur dreifst eða sé meðferð úrgangs ábótavant að öðru leyti getur heilbrigðisnefnd krafist þess að viðkomandi aðili hreinsi upp og geri viðeigandi ráðstafanir. Námurétthafi skal ávallt leita leiða til að endurnota eða endurnýta úrgang. Þann hluta sem úrgangshafi nýtir ekki sjálfur skal flytja til söfnunar- eða móttökustöðva sem hafa starfsleyfi.
Úrgangi sem fellur til við atvinnurekstur skal safna saman og flytja brott þegar í stað eða geyma þannig að óhollusta eða óþrifnaður stafi ekki af. Úrgang skal geyma í hentugum sorpílátum.
Helstu leitarorð: Meðhöndlun úrgangs, meðferð úrgangs, starfsleyfi
Reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns
Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir og draga úr mengun vatns og umhverfis þess af mannavöldum, að takmarka afleiðingar mengunar sem þegar hefur orðið á vatni og að flokkun vatns lúti tilteknum reglum, að tryggja að losun forgangsefna í vatn verði hætt og að styrkur þeirra í vatni hækki ekki frá því sem verið hefur og að stuðla að almennri vernd vatns.
Mengun vatns er óheimil.
Reglugerðin gildir m.a. um losunarmörk vegna losunar ýmissa hættulegra og óæskilegra efna og efnasambanda í vatn frá atvinnurekstri. Gildir um olíu, og spilliefni, einnig getur verið um að ræða efni eins og málningu, hreinsiefni o.fl.
Öll losun mengandi efna og skólps í vatn er óheimil án starfsleyfis. Í starfsleyfum skal þess krafist að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir, m.a. með því að beita bestu fáanlegri tækni, til að koma í veg fyrir vatnsmengun. Jafnframt skal leitast við að nota þau efni sem skaða umhverfið sem minnst. Við ákvörðun um framkvæmdir á vatnsverndarsvæði skal umsækjandi starfsleyfis leggja fram mat um hvort hætta sé á að vatnsbólið spillist vegna nálægrar efnisvinnslu eða umferðar.
Helstu leitarorð: Verndun vatns, losun úrgangs, umhverfismörk
Reglugerð nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns
Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir og draga úr mengun grunnvatns og umhverfis þess af mannavöldum. Í reglugerðinni er m.a. tekið á losun efna í grunnvatn, notkun hættulegra efna og ákvæði starfsleyfa.
Reglugerðin tekur til atvinnurekstrar hér á landi. Reglugerðin gildir um varnir gegn mengun grunnvatns og um losunarmörk, gæðamarkmið og umhverfismörk.
Helstu leitarorð: Verndun grunnvatns, losun efna, losun frá úrgangi, urðun úrgangs
Aðrar reglugerðir
Reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun
Reglugerð nr. 528/2005 um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands
Reglugerð nr. 650/2006 um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns
Reglugerð nr. 1020/2011 um rafhlöður og rafgeyma
Reglugerð nr. 941/2011 um auglýsingar meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis
Reglugerð nr. 750/2008 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni („REACH“)
Reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja
Reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit Reglugerð nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi Reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang
Reglugerð nr. 806/1999 um spilliefni
Reglugerð nr. 684/1999 um sprengiefni
Reglugerð nr. 236/1990 um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni
Reglugerð nr. 857/1999 um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna
Reglugerð nr. 946/1999 um rafhlöður og rafgeyma með tilteknum hættulegum efnum
Reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp
Reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði
Reglugerð nr. 788/1999 um varnir gegn loftmengun af völdum hreyfanlegra uppsprettna