Lög
Hér er að finna yfirlit yfir helstu lög er varða efnistöku
Skipulagslög nr. 123/2010
Markmið skipulagslaga er m.a. að stuðla að vernd umhverfis með því að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við hönnun og gerð mannvirkja. Við setningu laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, voru ákvæði eldri náttúruverndarlaga um nám jarðefna færð í skipulagslög, nr. 123/2010, og lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Ber þar helst að nefna breytingar á 12. gr., 13. gr. og 16. gr. skipulagslaga.
Við 3. mgr. 12. gr. skipulagslaga bættist nýr málsliður, sem kveður m.a. á um að gera skuli grein fyrir þeim svæðum innan skipulagssvæðisins sem njóta verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd eða öðrum lögum. Í 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga kemur fram að öll efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr hafsbotni innan netlaga sé háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Þó er eiganda eða umráðamanni eignarlands heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði eða jarðminjar eða vistkerfi sem njóta verndar skv. 57. gr. laga um náttúruvernd. Kveðið er á um skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi vegna efnistöku og atriða sem koma þurfa fram í leyfinu en gera skal grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi samþykkt aðalskipulag sem framangreindir aðilar hafa gefið umsögn sína um, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga um náttúruvernd.
Á eftir 1. málsl. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga kom nýr málsliður sem kveður á um að jafnframt skuli sveitarstjórn ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga.
Við 16. gr. laganna bættist ný málsgrein sem kveður á um að þegar um er að ræða efnistöku getur sveitarstjórn krafist þess að námuréttarhafi leggi fram tryggingu sem hún telur fullnægjandi fyrir áætluðum kostnaði við eftirlit og frágang efnistökusvæða. Efnistökusvæði skal ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en þrjú ár en sveitarstjórn getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði, enda séu sérstakar ástæður fyrir tímabundinni stöðvun. Ráðherra setur nánari fyrirmæli um frágang efnistökusvæða í reglugerð.
Samkvæmt skipulagslögum ber að sýna námur á skipulagi. Skipulagsskylda nær til lands og hafs innan marka sveitarfélaga. Bygging mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir.
Sveitarstjórn getur bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, að svo miklu leyti sem aðrir sem veita leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafa ekki tekið afstöðu til þeirra. Jafnframt er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn hefur eftirlit með að framkvæmdir séu í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi.
Helstu leitarorð: Framkvæmdaleyfi, efnistaka, skipulagsáætlanir
Lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana
Markmið laganna er að stuðla að sjálfbærri þróun, heilnæmu umhverfi og umhverfisvernd og skal vinna að því með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er markmið laganna skilvirkni við umhverfismat framkvæmda og áætlana og að almenningur hafi aðkomu að því. Einnig eiga lögin að stuðla að samvinnu aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana.
Ákvæði laganna gilda um skipulagsáætlanir og breytingar á þeim samkvæmt skipulagslögum og lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Einnig gilda lögin um aðrar áætlanir og breytingar á þeim sem marka stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda sem eru matsskyldar og um framkvæmdir sem kunna eða eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. viðauka laganna.
Samkvæmt 1. viðauka laganna er efnistaka þar sem áætluð efnistaka raskar 25 ha svæði eða stærra eða er 500.000 m3 eða meiri ávallt háð mati á umhverfisáhrifum (sjá framkvæmdir í flokki A í 1. viðauka laga við mat á umhverfisáhrifum).
Efnistaka þar sem áætluð efnistaka raskar 2,5 ha svæði eða stærra eða er 50.000 m3 eða meiri, efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 ha kann að vera háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 1. viðauka laganna (sjá framkvæmdir í flokki B í 1. viðauka laga við mat á umhverfisáhrifum). Metið er af Skipulagsstofnun í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Viðmið sem skipta máli við ákvörðun um matsskyldu þeirra framkvæmda eru tilgreind í 2. viðauka laganna.
Sé framkvæmd háð mati á umhverfisáhrifum verður námurétthafi að leggja fram tillögu að matsáætlun og vinna umhverfismatsskýrslu á sinn kostnað. Matsferli verður að vera lokið áður en framkvæmdaleyfi er gefið út og framkvæmdir hefjast.
Helstu leitarorð: Efnistaka, umhverfismat, umhverfismatsskýrsla, matsáætlun, matsskylda, umtalsverð umhverfisáhrif
Lög nr. 60/2013 um náttúruvernd
Markmið náttúruverndarlaga er að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft. Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt. Þau eiga einnig að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.
Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Undanþágur eru í gildi vegna starfa manna við landmælingar, vegalagnir og rannsóknir (Rg. nr. 528/2005). Meiriháttar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og skilyrði framkvæmdaleyfa, þar sem það á við.
Eftirtaldar jarðmyndanir og vistkerfi njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:
- Eldvörp, gervigígar og eldhraun.
- Stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m2 að stærð eða stærri.
- Mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri.
- Fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m2 að stærð eða stærri.
- Sjávarfitjar og leirur.
Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til framkvæmda þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum. Leita skal umsagnar og tilkynna Umhverfisstofnun um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði öðrum náttúruminjum á náttúruminjaskrá. Samkvæmt 57. gr. laganna skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúruverndarnefndar áður en tekin er ákvörðun um röskun. Senda skal Umhverfisstofnun afrit af útgefnu leyfi til framkvæmda sem fela í sér skerðingu á friðuðu vistkerfi eða vistgerð eða búsvæði friðaðrar tegundar.
Ekki skal að óþörfu eyða eða spilla gróðurlendi með mosa-, lyng- eða hrísrifi.
Friðlýstum náttúruminjum má enginn granda, spilla né breyta.
Helstu leitarorð: Náttúruminjar, náttúruverndarsvæði, jarðmyndanir og vistkerfi, meiri háttar framkvæmdir, skipulag
Vegalög nr. 80/2007
Markmið laganna er að setja reglur um vegi og veghald sem stuðla að greiðum og öruggum samgöngum.
Vegagerðinni er heimilt að framkvæma rannsóknir og byrjunarathuganir sem nauðsynlegar eru við undirbúning vegagerðar á öllu landinu. Landeiganda og umráðamanni lands er skylt að veita Vegagerðinni nauðsynlegan aðgang að landi sínu vegna undirbúnings vegagerðar.
Leit að efni til vegagerðar má Vegagerðin framkvæma hvar sem vera skal.
Vegagerðinni eru heimil afnot lands fyrir geymslu efnis og fyrir bækistöðvar vinnuflokka við lagningu eða viðhald vegar.
Skylt er landeiganda að leyfa að vatni sem veita þarf frá vegi sé gerð framrás um land hans ef brýna nauðsyn ber til.
Vegagerðin skal eftir því sem við verður komið hafa samráð við landeiganda um bráðabirgðaafnot lands og skal tilkynna landeiganda um þau með hæfilegum fyrirvara. Vegagerðin getur þó í neyðartilvikum gripið til bráðabirgðaráðstafana án fyrirvara ef bjarga þarf verðmætum eða tryggja öryggi samgangna. Vegagerðin skal gæta meðalhófs og þess að valda ekki meira raski við bráðabirgðaafnot lands en brýna nauðsyn ber til.
Vegagerðin skal greiða landeiganda bætur vegna tjóns og óhagræðis sem sannanlega hlýst af bráðabirgðaafnotum lands. Heimilt er að ákvarða bætur fyrir bráðabirgðaafnot lands samhliða bótum vegna eignarnáms.
Landeiganda er skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds. Landeiganda ber jafnframt að leyfa efnistöku í landi sínu til vegagerðar hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni, enda bætist það að fullu.
Þegar ákvörðun um eignarnám eða aðrar eignaskerðingar liggur fyrir skal leita samninga við landeiganda, og eftir atvikum aðra rétthafa, um bætur fyrir land undir veg, jarðefni til vegagerðar o.fl. sem landeiganda er skylt að láta af hendi vegna vegagerðar.
Landeigandi á bætur allar fyrir eignarnám og jarðrask vegna vegagerðar.
Helstu leitarorð: Jarðefni, eignarnám, bráðabirgðaafnot lands
Lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu
Lögin taka til auðlinda í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga.
Við setningu náttúruverndarlaga nr. 60/2013 voru ákvæði eldri náttúruverndarlaga um nám jarðefna færð í skipulagslög, nr. 123/2010, og lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Ber þar helst að nefna 8. gr. a. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem kom þá ný inn í lögin. Þar segir að efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr sjávarbotni innan netlaga sé háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er eiganda eða umráðamanni eignarlands heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota, nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði eða jarðminjar eða vistkerfi sem njóta verndar skv. 57. gr. laga um náttúruvernd, en gæta skal ákvæða 2. mgr. 144. gr. vatnalaga þegar um er að ræða efnistöku sem tengist vatni.
Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.
Heimilt er, án nýtingarleyfis frá Orkustofnun, að rannsaka og hagnýta á eignarlandi berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand.
Mannvirki öll til hagnýtingar á auðlindum skulu þannig úr garði gerð að af þeim stafi hvorki hætta né veruleg óþægindi fyrir umferð eða spjöll á eign annars manns, nema honum sé skylt að hlíta því samkvæmt lögum eða samningum.
Helstu leitarorð: Jarðefni, rannsóknarleyfi, nýtingarleyfi, nýting auðlinda
Lög nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins
Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.
Enginn má leita að efnum til hagnýtingar á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga, nema að fengnu skriflegu leyfi Orkustofnunar.
Við veitingu leyfa samkvæmt lögunum skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum.
Helstu leitarorð: Leyfi, hagnýting, auðlind
Lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði
Markmið laganna er meðal annars að kveða á um verndun fiskstofna í ferskvatni.
Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna , aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Fiskistofu. Um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir fer einnig samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki.
Með umsókn námurétthafa eða landeiganda til Fiskistofu um leyfi til framkvæmda við ár og vötn skulu fylgja álit viðkomandi veiðifélags þegar það á við og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Leyfi Fiskistofu skal aflað áður en ráðist er í framkvæmd.
Ef sérstök ástæða þykir til getur Fiskistofa krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt.
Helstu leitarorð: Mannvirkjagerð, veiðivatn
Vatnalög nr. 15/1923
Markmið laganna er meðal annars að tryggja skynsamlega nýtingu vatnsauðlindarinnar og langtímavernd hennar með fyrirbyggjandi aðgerðum á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Einnig að samþætta nýtingar- og umhverfissjónarmið á sviði vatnamála og auka samvinnu stjórnvalda á því sviði. Lögin taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar, í föstu eða fljótandi formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki þar um.
Óheimilt er, nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess, að breyta vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð, að gerstífla vatnsfall eða gera mannvirki í vatni eða yfir því.
Helstu leitarorð: Forn farvegur, mannvirkjagerð
Lög nr. 80/2012 um menningarminjar
Tilgangur laga um menningarminjar er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.
Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri. Þær njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands.
Fornleifum, jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða.
Finnist fornminjar sem áður voru ókunnar, t.d. undir yfirborði jarðar, sjávar, vatns eða í jökli, skal skýra Minjastofnun Íslands frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Helstu leitarorð: Fornminjar, fornleifar
Lög nr. 17/1965 um landgræðslu
Markmið laganna er að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs og að græða upp eydd og vangróin lönd. Samkvæmt lögunum skal land nytja með þeim hætti að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Sá sem landspjöllum veldur, með mannvirkjagerð eða á annan hátt, er skyldur að bæta þau. Landgræðslan hefur eftirlitsskyldu gagnvart námurétthafa. Helstu leitarorð: Gróðurvernd, landspjöll, mannvirkjagerð
Lög nr. 91/2002 um varnir gegn landbroti
Tilgangur laga þessara er að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með fyrirhleðslum gegn ágangi vatna.
Helstu leitarorð: Landbrot, fyrirhleðslur
Lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála
Markmið laganna er að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar.
Námurétthafi skal haga framkvæmdum á grunnvatnssvæðum þannig að tryggt sé að ástand þeirra versni ekki.
Draga skal í áföngum úr mengun vegna skaðlegra og þrávirkra efna (forgangsefna) í vatni með markvissum aðgerðum með það að markmiði að stöðva losun þeirra. Námurétthafi þarf því að forðast notkun efna sem eru hættuleg umhverfi.
Það telst ekki brjóta í bága við kröfur um umhverfismarkmið samkvæmt lögunum ef vistfræðilegt ástand í vatnshloti spillist tímabundið vegna óviðráðanlegra ytri atvika s.s. náttúruhamfara. Verði mengunarslys skal námurétthafi grípa til allra þeirra ráðstafana sem raunhæfar teljast til að koma í veg fyrir að ástand vatnshlotsins rýrni frekar en orðið er og til að hindra að skaði hljótist af í öðru vatnshloti.
Helstu leitarorð: Vatnshlot, umhverfismarkmið
Lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs
Markmið laganna er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, svo og að draga úr hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra. Jafnframt er það markmið laganna að dregið verði skipulega úr myndun úrgangsefna eftir því sem unnt er. Þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu og nauðsynlegri förgun úrgangs háttað þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.
Umhverfisstofnun gefur út almenna áætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir landið allt en sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi.
Námurétthafa ber að flokka úrgang í samræmi við kröfur sveitarfélaga. Námurétthafi getur skilað rafhlöðum og rafgeymum til söfnunarstöðva.
Námuúrgangsstaður er staður í námu þar sem spilliefni, sem notuð eru eða til falla við námuvinnsluna, eru meðhöndluð sem úrgangur. Námuúrgangsstaðir skulu hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir. Námurétthafi skal gera úrgangsáætlun vegna reksturs námuúrgangsstaða. Fyrir námuúrgang sem flokkast sem hættulegur skal námurétthafi gera viðbragðsáætlun vegna hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna og setja fram aðgengilegar upplýsingar um þá hættu.
Helstu leitarorð: Námuúrgangsstaður, förgunarstaður, úrgangsáætlun, viðbragðsáætlun, móttökustöð
Önnur lög sem geta átt við eftir atvikum
Lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu
Lög nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess
Lög nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum
Lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar
Lög nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð
Lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta
Lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum
Lög nr. 15/1994 um dýravernd
Lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda
Lög nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni
Lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna
Lög nr. 45/2008 um efni og efnablöndur
Lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
Lög nr. 3/1955 um skógrækt
Lög nr. 75/2000 um brunavarnir
Lög nr. 132/1999 um vitamál
Lög nr. 28/1997 um sjóvarnir
Lög nr. 55/2012 um umhverfisábyrgð
Ábúðarlög nr. 80/2004
Upplýsingalög nr. 50/1996