Leyfi vegna efnistöku af hafsbotni
Orkustofnun er leyfisveitandi vegna efnistöku af hafsbotni utan netlaga. Efnistöku af hafsbotni geta fylgt margvísleg umhverfisáhrif sem huga þarf að áður en ákvarðanir um leyfi til efnistöku eru teknar. Sömu stærðarmörk gilda fyrir efnistöku af hafsbotni og efnistöku á landi varðandi mat á umhverfisáhrifum.
Lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, gilda um efnistöku á hafsbotni utan netlaga, þ.e. á sjávarbotni 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Innan netlaga þarf framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar, en utan netlaga er óheimilt að taka eða nýta efni af hafsbotni eða úr honum nema að fengnu skriflegu leyfi Orkustofnunar. Orkustofnun er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir töku eða nýtingu á því efni sem hún heimilar. Tekjum af leyfum skal að jafnaði varið til hafsbotns- og landgrunnsrannsókna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
Leyfi til hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni skal bundið við ákveðið svæði og gilda til ákveðins tíma sem ekki má vera lengri en 30 ár. Í leyfisbréfi skal m.a. ætíð greina hverjar ráðstafanir leyfishafi skuli gera til að forðast mengun og spillingu á lífríki láðs og lagar og við veitingu leyfa samkvæmt hafsbotnslögunum skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum.
Þær framkvæmdir sem eru annars vegar tilgreindar í flokki A í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, þ.e. þegar áætlað er að raska 50.000 m2 svæði eða stærra með efnistökunni eða ef efnismagn er 150.000 m3 eða meira. Hins vegar skulu framkvæmdir sem eru tilgreindar í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar (sjá nánar hér). Af þessum ástæðum þarf að liggja fyrir í málsmeðferð Orkustofnunar, hver sé afstaða Skipulagsstofnunar um, eftir atvikum, matsskyldu eða mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar áður en tekin er afstaða til leyfisveitingarinnar og skilyrði sett í leyfinu, ef slíkt gefur tilefni til. Afstaða viðkomandi sveitarfélags þarf að liggja fyrir ef um er að ræða framkvæmd í flokki C í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum sem háð er framkvæmda- eða byggingarleyfi sveitarstjórnar.
Mikilvæg forsenda nýtingar, leyfisveitingar Orkustofnunar, er að fyrir liggi grunnrannsóknir á viðkomandi efnistökusvæði. Sé slíkum rannsóknum ekki til að dreifa getur Orkustofnun veitt umsóknaraðila leitar- eða rannsóknarleyfi á svæðinu með fyrirheiti um forgang að nýtingu efnis á umræddu svæði í tiltekinn tíma, allt að tvö ár eftir að rannsóknum lýkur.
Orkustofnun hugar að þáttum umhverfisins í málsmeðferð, þ.m.t. náttúrumyndunum, náttúruminjum, fornminjum og straumum, en einnig að annarri starfsemi svo sem kræklingarækt, fiskeldi, fiskveiðum, fiskigöngum laxfiska í ár á nálægum svæðum, siglingaleiðum og sæstrengjum. Í ljósi þessa metur Orkustofnun umsóknir um leit og rannsóknir á efnistöku á hafsbotni að fenginni umsögn eftirtalinna aðila, eftir því sem þörf er á:
- Umhverfisstofnunar
- Minjastofnunar
- Hafrannsóknastofnunar
- Fiskistofu
- Fjarskiptafyrirtækja
- Samgöngustofu
Einnig er eftir atvikum leitað umsagnar annarra aðila sem mögulega eiga hagsmuna að gæta á fyrirhuguðu efnistökusvæði með vísan til viðeigandi lagaákvæða m.a. ákvæða stjórnsýslulaga. Sama á við um nýtingarleyfi, en þá á einnig að liggja fyrir afstaða til mats á umhverfisáhrifum efnistökunnar.
Ákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa samkvæmt lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Orkustofnun veitir nánari upplýsingar um hvaða atriði þurfa að koma fram í umsókn um rannsóknar- eða nýtingarleyfi (sjá einnig hér á vef Orkustofnunar).
Á Orkuvefsjá Orkustofnunar má sjá áður útgefin leyfi (sjá hér).