Framkvæmdaleyfi
Ávallt þarf að sækja um framkvæmdaleyfi áður en efnistaka hefst nema um sé að ræða minniháttar efnistöku landeiganda eða umráðamanns eignarlands til eigin nota, sem ekki raskar jarðmyndunum eða vistkerfum sem njóta sérstakrar verndar.
Öll efnistaka á landi, úr ám, vötnum og af eða úr hafsbotni innan netlaga skal vera í samræmi við skipulagsáætlanir og framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Eiganda eða umráðamanni eignarlands er þó heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði eða jarðminjar eða vistkerfi sem njóta verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd, en gæta skal ákvæða 2. mgr. 144. gr. vatnalaga þegar um er að ræða efnistöku sem tengist vatni.
Sá sem óskar eftir framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skal senda skriflega umsókn til hlutaðeigandi sveitarstjórnar ásamt efnistökuáætlun, þ.e. lýsingu á framkvæmdinni með hliðsjón af skilmálum í deiliskipulagi viðkomandi efnistökusvæðis. Í gögnum þarf að gera grein fyrir landslagi fyrir efnistöku og að efnistöku lokinni, stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem sótt er leyfi fyrir, vinnslutíma, yfirborðsefnum til að hindra fok á jarðefnum og annað sem nauðsynlegt þykir og deiliskipulag kveður á um.
Í 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi er kveðið nánar á um gögn og upplýsingar sem þurfa að fylgja framkvæmdaleyfisumsókn, þ.m.t. álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum eða niðurstaða um matsskyldu í þeim tilvikum sem framkvæmdin er háð lögum um mat á umhverfisáhrifum (sjá nánar reglugerð um framkvæmdaleyfi og lög um mat á umhverfisáhrifum). Gögnin þarf að leggja fram í tveimur eintökum. Leyfisveitandi getur farið fram á frekari upplýsingar, telji hann þær nauðsynlegar.
Liggi ekki fyrir í skipulagi umsagnir umsagnaraðila um framkvæmdina skulu þær fylgja umsókn um framkvæmdaleyfi. Umsagnaraðilar geta verið opinberar stofnanir og stjórnvöld sem sinna lögbundnum verkefnum á sviði skipulagsmála og leyfisveitingum þeim tengdum, t.d. eftir því sem við á: Orkustofnun, Vegagerðin, Umhverfisstofnun, Skógrækt ríkisins, Minjastofnun, Fiskistofa, slökkvilið og heilbrigðis- eða náttúruverndarnefnd viðkomandi sveitarfélags.
Almennt skal framkvæmdaleyfi veitt á grundvelli deiliskipulags, en ef það liggur ekki fyrir þarf sveitarstjórn að ákveða hvort ráðist skuli í gerð deiliskipulags eða hvort önnur málsmeðferð sé möguleg skv. skipulagslögum (sjá nánar hér).
Ef óvissa er um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á tiltekin vistkerfi og jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd eða minjar sem skráðar eru á C-hluta náttúruminjaskrár skv. 37. gr. sömu laga skal umsækjandi um framkvæmdaleyfi afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar. Sveitarstjórn er heimilt að binda framkvæmdaleyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljast alvarleg eða óafturkræf áhrif skal taka mið af verndarmarkmiðum, sbr. ákvæði laga um náttúruvernd.
Útgáfa framkvæmdaleyfis er háð samþykki sveitarstjórnar. Áður en það er gefið út þurfa framkvæmdaleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd eða samið um greiðslu þeirra.
Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skal gefið út til tiltekins tíma þar sem gerð er grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Ef framkvæmdin er matsskyld skal sveitarstjórn við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfis framkvæmdar til grundvallar.
Myndin hér fyrir ofan sýnir helstu skref við umsókn um framkvæmdaleyfi
Efnistaka getur einnig verið háð öðrum leyfum en framkvæmdaleyfi, s.s. leyfi forsætisráðherra, Fiskistofu, Minjastofnunar Íslands eða Umhverfisstofnunar, og ættu þau leyfi að liggja fyrir þegar framkvæmdaleyfið er gefið út (sjá nánar hér í umfjöllun um önnur leyfi). Óheimilt er að hefja efnistöku fyrr en öll leyfi liggja fyrir.
Nánari ákvæði um útgáfu framkvæmdaleyfis er að finna í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.