Áætlun um efnistöku
Áætlun námuréttarhafa um væntanlega efnistöku, þar sem m.a. er gerð grein fyrir magni og gerð efnis, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði, verður að liggja fyrir áður en leyfi er veitt til efnistöku
Áður en leyfi er veitt til efnistöku skal liggja fyrir áætlun námuréttarhafa um efnistöku eða lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, afstöðumynd og önnur nauðsynleg gögn um framkvæmdina samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í áætlun um efnistöku skal meðal annars gera grein fyrir magni og gerð efnis, vinnslutíma, hvernig fyrirhugað er að standa að framkvæmdinni og frágangi á efnistökusvæði. Mikilvægt er að vanda vel til verks við gerð áætlunar um efnistöku og leggja fram raunhæfa áætlun um það hvernig ætlunin er að standa að efnistökunni og frágangi að efnistöku lokinni.
Umfang þeirra gagna sem leggja verður fram í áætlun um efnistöku er mjög háð umfangi framkvæmdar. Þegar áætlun um efnistöku er tekin saman er vert að hafa í huga leiðbeiningar við val og skipulagningu á námusvæði og tilhögun efnistöku (sjá nánar hér). Við gerð áætlunar um efnistöku skal taka mið af umhverfi efnistökusvæðisins og fyrirhugaðri landnotkun í framtíðinni. Við gerð slíkrar áætlunar þarf að gera grein fyrir landslagi og gróðurfari svæðis áður en efnistakan hefst og útliti svæðis að efnistöku lokinni. Hafa skal í huga að ganga þarf endanlega frá efnistökusvæði innan þriggja ára frá því að efnistöku er hætt, nema sérstakar ástæður séu fyrir tímabundinni stöðvun, sbr. 16. gr. skipulagslaga. Í lýsingu á frágangi efnistökusvæðis þarf að koma fram, eftir atvikum, hvernig:- Meðhöndla á núverandi gróður á fyrirhuguðu efnistökusvæði
- Haga skuli uppgræðslu svæðis þegar efnistöku lýkur
- Komið verði í veg fyrir áfok frá efnistökusvæðinu