Þol landslags fyrir röskun
Hyggja þarf vandlega að staðsetningu efnistökusvæða og laga þau eins vel og mögulegt er að landslagi og umhverfi. Áður en efnistaka hefst er mikilvægt að fyrir liggi hve mikla efnistöku landslagsheild þolir án þess að svipmót hennar spillist varanlega.
Þol mismunandi landslags fyrir röskun eins og efnistöku
Landslag er misviðkvæmt fyrir áhrifum efnistöku, hvort sem efnistakan skerðir ákveðin landform eða ný form bætast við. Áður en efnistaka hefst er mikilvægt að fyrir liggi hve mikla efnistöku landslagsheild þolir án þess að svipmót hennar spillist.
Landslag við Hvalnes við Eystrahorn er dæmi um landslag sem er viðkvæmt fyrir efnistöku. Þar myndi jafnvel smávægileg efnistaka raska heildarsvipmóti svæðisins (sjá mynd hér til hliðar). Náma sem var við Grábrók í Borgarfirði, er dæmi um efnistöku sem var til mikilla lýta og hafði mikil sjónræn áhrif, sem erfitt var að bæta (sjá mynd hér fyrir ofan).
Við mat á landslagi er reynt að skilgreina þau form sem mynda sjónræna heild og samhengi. Til einföldunar er landslagi skipt í þrjá flokka, landþröng, opið landslag og samsett landslag. Hér er ekki um tæmandi flokkun að ræða, heldur ákveðin heildareinkenni sem hægt er að nota til að glöggva sig á áhrifum efnistöku á viðkomandi svæði.
Efnistökustaður í landþröng
Landslag þar sem undirlendi er lítið og afmarkast af fjöllum, eða fjöllum og hafi. Allar breytingar verða mjög sýnilegar. Hyggja þarf vandlega að staðsetningu efnistökusvæða og aðlaga þau eins og kostur er að landslagi og umhverfi. Dæmi um landþröng er að finna í Seldal í Öxnadal, þar sem undirlendi er mjög lítið.
Efnistökustaður í opnu landslagi
Opið landslag er víðátta þar sem land er tiltölulega slétt. Allar breytingar verða mjög sýnilegar og erfitt að forðast sýnilega efnistöku á framkvæmdatíma. Mikilvægt er að laga efnistöku að þeim landformum sem fyrir eru. Ummerki skammtíma efnistöku geta verið mjög lítil. Dæmi um opið landslag má sjá á Markarfljótsaurum.
Efnistökustaður í samsettu landslagi
Þar sem landslag er fjölbreytt að lögun, er það flokkað sem samsett landslag. Við slíkar aðstæður getur verið tiltölulega auðvelt að fella efnistökusvæði aftur að nánasta umhverfi. Jafnvel er hægt að fjarlægja einstök landform alveg án þess að raska yfirbragði viðkomandi svæðis. Landslag við Uxatinda á afrétti við Skaftá er dæmi um samsett landslag.