Landslag
Landslag er samsafn margra forma og tekur sífelldum breytingum af hálfu manns og náttúru. Með efnistöku hefur maðurinn áhrif á landslag og er talin ástæða til að eyða ummerkjum sem mest að efnistöku lokinni.
Hvað er landslag?
Landslag er samsafn margra forma, náttúrulegra og manngerðra. Viðhorf, staðsetning og sjónarhorn ráða því hvaða landslag menn telja einkennandi fyrir viðkomandi landsvæði. Mýrlendi getur verið flatt úr fjarska, úfið kargaþýfi þegar nær er komið. Landslag tekur sífelldum breytingum af hálfu manns og náttúru. Þessir þættir eru nátengdir og hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif hver á annan. Náttúruleg ferli svo sem skriðuföll eru almennt talin ásættanleg og ástæðulaust að reyna að hindra þau, nema fólki og eignum stafi hætta af. Með efnistöku hefur maðurinn hins vegar áhrif á landslag og er talin ástæða til að eyða ummerkjum sem mest að efnistöku lokinni. Áður en efnistaka hefst þarf að átta sig á þeim breytingum sem landslagið mun taka, því með efnistöku er maðurinn að móta landslag varanlega og oft með öðrum hætti en náttúruöflin.
Mannvirki í landslagi
Maðurinn hefur í árþúsundir sett mark sitt á umhverfið með mannvirkjagerð. Mannvirkjagerð er meðvituð og skipulögð framkvæmd, þar sem tilgangur mannvirkis og hugmyndir um notkun þess hafa áhrif á útlit þess. Mannvirki geta ýmist fallið vel að umhverfi eða skorið sig úr, aukið fjölbreytni umhverfis og prýtt, allt eftir smekk manna. Til dæmis sker Sumarhöllin í Beijing sig rækilega úr umhverfi sínu (mynd t.h.), en þvottalaugin við Nanning (fyrir neðan) fellur inn í sitt umhverfi.
Landslagssamningur Evrópu
- Að veita landslagi ákveðinn sess í lögum og viðurkenna mikilvægi þess í umhverfi landsins.
- Að móta og framfylgja stefnu um landslag sem miðar að verndun, nýtingu og skipulagi þess.
- Að tryggja aðkomu almennings o.fl. að mótun stefnu um landslag.
- Að huga að landslagi við aðra stefnumótun, svo sem í stefnu um byggðaþróun, menningarmál, landbúnað, félagsmál og efnahagsmál.
„Svæði sem ber það með sér í skynjun fólks að vera til orðið af náttúrunnar hendi og/eða með mannlegri íhlutun.“ Í enska textanum er skilgreiningin eftirfarandi: „Landscape means an area, as perceived by people, whose character is the result of the action and interaction of natural and/or human factors.“
Ísland undirritaði Landslagssamninginn árið 2012. Með þátttöku í samningnum er staðfestur vilji stjórnvalda til að stuðla að landslagsvernd og taka ákveðin skref í þá átt, í samræmi við leiðbeiningar samningsins. Þá getur Ísland nýtt sér vinnu sem þegar hefur farið fram í tengslum við samninginn í öðrum Evrópuríkjum. Að auki mun Ísland leggja fram þekkingu og reynslu sem hefur safnast hérlendis á sviði landslagsgreiningar og landslagsverndar. Sjá meira um landslagssamning Evrópu hér.