Jarðgrunnur landsins
Jarðgrunnurinn er einkum gerður úr lausum eða lítt hörðnuðum jarðlögum svo sem jökulruðningi, sjávarseti, árseti og jarðvegi.
Ofan á berggrunninum hvílir jarðgrunnurinn en hann er einkum gerður úr lausum eða lítt hörðnuðum jarðlögum svo sem jökulruðningi, sjávarseti, árseti og jarðvegi. Jarðvegur (mold, mór) er set sem er blandað lífrænum leifum. Mikil gjóska er í jarðveginum sérstaklega við gosbeltið. Uppruni allra setlaga, nema gjósku, sem myndast við eldsumbrot, er frá berggrunni landsins. Þau myndast að miklu leyti við niðurbrot bergs vegna veðrunar. Efni flyst til frá veðrunarstað af völdum jökla, fallvatna, sjávar, hruns eða með vindi og þar sem efnið sest til myndast setlög.
Mestur hluti setlaga hér á landi hefur orðið til við lok eða eftir síðasta jökulskeið, sem lauk fyrir um 10.000 árum. Þegar jökullinn bráðnaði fluttu vatnsmiklar jökulár með sér mikið efni. Samhliða því að jöklar hopuðu jókst vatnsmagn í höfunum þannig að sjávarstaða hækkaði og sjór flæddi inn yfir land sem áður var hulið jökli. Hæst varð sjávarstaðan um 30-125 m hærri en hún er í dag. Mynduðust þá malarhjallar, þ.e. sjávarkambar og óseyrar, þar sem nú er þurrlendi. Efsta sjávarstaða var mjög breytileg eftir landshlutum og varð hún hæst þar sem farg jöklanna hafði verið mest á ísöld.
Þegar fargi jöklanna létti af landinu reis það á ný úr sjó. Við það lækkaði afstæð sjávarstaða og því er talsvert af strandseti og sjávarseti milli núverandi sjávarmáls og hæstu strandlínumarka. Mest er af skoluðum setlögum með lágu hlutfalli fínefna neðan við hæstu strandlínumörk. Ofan hennar finnast skoluð efni í áreyrum og setlögum sem mynduðust við framburð jökulvatna.
Um 89% af námum landsins eru setnámur. Flestar setnámur á landinu eru í áreyrum og malarhjöllum en hlutfallslega færri í öðrum setmyndunum þ.e. jökulruðningi, jökuláraurum, aurkeilum, skriðum og malarkömbum. Þá er efni dælt upp af sjávarbotni, t.d. í Faxaflóa.
Setlög
Heildarmagn setlaga hérlendis er óþekkt, en magn þeirra er mismunandi eftir landshlutum. Vitneskja um magn og dreifingu lausra jarðlaga á landinu myndi stuðla að hagkvæmari og markvissari nýtingu efnisins miðað við mismunandi aðstæður og gæðakröfur. Hér er nánar fjallað um nokkrar gerðir setlaga.
Jökulruðningur:
Auk þess að vera afkastamiklir við svörfun landsins flytja jöklar umtalsvert magn efnis. Í jökulruðningi ægir saman öllum kornastærðum, allt frá leir og upp í stórgrýti. Jökulruðningur er mest notaður í vegfyllingar og stíflukjarna en einnig í malarslitlög á vegum.
Straumvatnaset:
Skiptist í tvo meginflokka, þ.e. jökulárset og árset. Gerð og eiginleikar jökulár- og ársets eru um margt svipaðir. Straumvatnaset er aðgreint malar- og sandset sem ár flytja og hlaða upp.
- Jökuláraurar: Set jökuláa hleðst upp við breytilegar aðstæður en þær ráða miklu um mismunandi kornastærðardreifingu, lagskiptingu og útbreiðslu. Dæmi um jökulárset er Skeiðarársandur og fornir jökuláraurar á Rangárvöllum. Algengast er að það sé sandrík möl, sem er m.a. notuð í steypu, burðarlög vega, bundin slitlög og sem sía í jarðstíflur.
- Áreyrar: Oftast nokkuð hreint sand- og malarefni. Við efnistöku úr ám og áreyrum er mjög algengt að í ljós komi moldarlög sem spilla notagildi efnisins. Áreyrarset er töluvert notað í jarðstíflur. Efni úr sumum ám hentar í burðarlög vega, en úr öðrum eingöngu sem fyllingarefni vega. Hér er fjallað nánar um efnistöku í ám.
Aurkeilur:
Myndast þar sem ár koma fram úr giljum. Jarðvegslög eru nokkuð algeng í aurkeilum. Þær eru notaðar í fyllingar og malarslitlög í vegagerð.
Skriður:
Ein algengasta gerð lausra jarðlaga. Skriðum er skipt niður í hrunskriður, berghlaup, þelaurð og aurskriður. Skriðuefni er helst notað í fyllingar og malarslitlag.
Malarhjallar:
Fornar óseyrar sem hlaðist hafa upp við hærri sjávarstöðu en nú er. Í malarhjöllum skiptast á malarlög, sandlög og fínna efni, en efnið er oftast sandkennd möl. Efni úr malarhjöllum er oft hæft bæði í burðarlag og bundið slitlag vega.
Malarkambar:
Kambar efst í fjöru úr möl og lábörðum hnullungum sem brimið hleður upp (einnig nefndir sjávarkambar eða fjörukambar). Efni við strendur er mjög mismunandi eftir bratta strandarinnar og orku brimsins. Breiðar og flatar strendur eru sandríkar en algengt er að strendur hér við land séu mjóar og brattar með misgrófri möl og fjörur víða stórgrýttar. Algengt er að taka efni úr fjörum til notkunar í steypu.
Sjávarset:
Set á sjávarbotni. Sjá umfjöllun um efnistöku af hafsbotni hér.