Berggrunnur landsins
Berggrunnur landsins er aðallega myndaður úr storkubergi og setbergi. Bergnámur eru um 11% af heildarfjölda náma á landinu.
Berggrunnur landsins er aðallega myndaður úr föstu bergi. Þessu bergi er almennt skipt upp í þrjá flokka eftir uppruna: storkuberg, setberg og myndbreytt berg. Þar sem eiginlegt myndbreytt berg er hvergi sjáanlegt á yfirborði hérlendis verður ekki fjallað nánar um það hér. Storkuberg myndast við storknun hraunkviku, ýmist djúpt í jörðu, djúpberg, grunnt í jörðu, gangberg, eða á yfirborði, gosberg. Setberg er berg sem myndast úr lausum jarðlögum við samlímingu og hörðnun. Sem dæmi um setberg má nefna sandstein og jökulberg.
Berggrunnurinn er að mestu úr hraunlögum og móbergi með lausum setlögum og setbergi inn á milli. Hann hefur verið flokkaður eftir jarðsögulegum aldri bergsins. Elst er berg sem myndaðist á neógen tímabili, þ.e. frá 2,6 til rúmlega 15 milljón ára (blágrýtismyndun). Næst að aldri er berg sem varð til á fyrri hluta ísaldar 0,8 til 2,6 milljón ára (grágrýtismyndun). Næst yngst er berg sem myndaðist að mestu undir jökli á síðari hluta ísaldar og er 10.000 til 780.000 ára gamalt, ýmist móberg myndað á kuldaskeiðum eða basalthraun og dyngjur mynduð á hlýskeiðum ísaldar (móbergsmyndun). Yngsta bergið eru nútímahraunin sem runnið hafa eftir síðasta jökulskeið á virka gosbeltinu, sem fylgir að mestu móbergsmynduninni.
Bergnámur eru einungis um 11% af heildarfjölda náma á landinu. Notkun grjóts fer smám saman vaxandi m.a. vegna þess að auðveldara er að tryggja jöfn gæði efnis í góðri grjótnámu en í setnámu þar sem efnið í setnámum er oft samsett af margvíslegum bergtegundum af misjöfnum gæðum. Hér er nánar fjallað um þann flokk bergs sem algengastur er á Íslandi, þ.e. storkuberg, en einnig er fjallað um setberg.Storkuberg
Storkuberg á Íslandi er flokkað í bergtegundir m.a. eftir kísilsýrumagni (SiO2) og storknunarstað bergsins þ.e. á hvaða dýpi í jarðskorpunni það hefur storknað. Langmest er af gosbergi en mun minna af gangbergi og djúpbergi. Algengasta bergtegund á Íslandi er basalt en aðrar bergtegundir eru m.a. rýolít (líparít) og andesít.
Styrkur bergs fer m.a. eftir kornastærð þess, þéttleika og ummyndun. Blöðrótt berg hefur að öðru jöfnu minni styrk en þétt berg. Ummyndun bergs er einnig mjög ráðandi þáttur varðandi gæði bergs til mannvirkjagerðar, þar sem veðrunarþol bergs minnkar með aukinni ummyndun.Gosberg
Gosberg rennur sem hraun á yfirborði jarðar (apalhraun, helluhraun) en gjóska (laus gosefni) dreifist með andrúmslofti frá eldstöðvum.
Basalthraunlög eru basískt gosberg frá neógen tímabilinu, oftast dulkornótt og dökk vegna ummyndunar bergsins (blágrýti). Basalthraunlög frá fyrri hluta ísaldar eru grófkornótt og grá að lit (grágrýti). Grjót úr basaltlögum er mikið notað í brimvarnir við hafnarmannvirki og varnargarða meðfram árfarvegum en einnig er grjót malað í hæfilegar stærðir fyrir bundið slitlag, burðarlag og styrktarlag vega.Rýolít (líparít) er súrt gosberg, venjulega ljósgrátt, gulleitt eða bleikt á lit. Það er jafnan dulkornótt eða glerkennt. Afbrigði af rýolíti, glerkennd og með öðrum lit, eru hrafntinna, biksteinn og perlusteinn. Rýolít finnst einkum í megineldstöðvum. Efnasamsetning rýolíts er þannig að það er talið óæskilegt til framleiðslu steinsteypu (fylliefni) vegna alkalívirkni þess.
Andesít og íslandít eru ísúrar tegundir gosbergs, dulkornóttar og mjög dökkar. Þær finnast einkum í megineldstöðvum.Móberg og bólstraberg eru yfirleitt úr basískum gosefnum frá ísöld. Móberg myndast þannig að heit bergkvika snöggkælist í vatni og myndar glersalla sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem ummyndast fljótlega í móberg sem er fast berg. Bólstraberg myndast hins vegar við gos undir miklum þrýstingi, t.d. djúpt í sjó eða undir þykkum jökli. Náma í bólstrabergi er t.d. í Lambafelli við Þrengslaveg.
Gangberg
Gangberg myndast þegar hraunkvika storknar í sprungum og myndar bergganga. Flestir berggangar eru fornar gosrásir.Djúpberg
Djúpberg myndast þegar hraunkvika storknar á nokkru dýpi í jarðskorpunni. Einkenni þess eru stórir kristallar í berginu. Gabbró er basískt djúpberg og er það jafnan dökkt eða grænleitt. Það er m.a. notað sem þekjusteinn í húsagerð, t.d. í Seðlabanka Íslands. Eystra- og Vestrahorn í Lóni eru stærstu gabbróhleifar hér á landi. Granófýr er súrt djúpberg sem jafnan er ljóst eða bleikt. Hér á landi finnst það í nokkrum smáum berghleifum og eitlum og venjulega á sömu stöðum og gabbró.Gjóska
Gosaska myndast þegar heit bergkvika snöggkælist í vatni og myndar gleragnir sem geta borist mjög langt frá eldstöðinni, jafnvel til nálægra landa. Vikur nefnast molar úr frauðkenndri, storknaðri bergkviku. Rýolítvikur er ljós á litinn, en basaltvikur dökkur. Vikur hefur m.a. verið notaður í léttsteypu og vegfyllingar.Gjall er einkum að finna í og við eldgíga og gervigíga. Gjall hefur verið notað sem einangrunarefni, í hleðslusteina í byggingariðnaði, sem fylliefni í grunna og í burðarlög og malarslitlög á vegum.