Námur á Íslandi
Vegagerðin heldur námuskrá þar sem eru skráðar upplýsingar um efnisnámur á Íslandi. Í námuskránni eru allar jarðefnanámur á landinu óháð efnisgerð og efnisnotkun og því hver námurétthafinn er.
Námuskrá Vegagerðarinnar
Vegagerðin heldur námuskrá þar sem skráðar eru upplýsingar um efnisnámur á Íslandi. Í námuskránni eru birtar ýmsar upplýsingar um námur, m.a. um staðsetningu við veg, efnisgerð, frágang og heiti jarðar sem náman er staðsett á. Skráðar eru allar jarðefnanámur á landinu óháð efnisgerð og efnisnotkun og því hver námurétthafinn er. Námuskrá Vegagerðarinnar er eini ítarlegi gagnagrunnurinn á Íslandi með almennum upplýsingum um námur. Námuskrá Vegagerðarinnar er hægt að nálgast á korti og loftmynd með því að fara á vefslóðina http://namur.vegagerdin.is/. Þar er hægt að vekja upp mismunandi þekjur af námum eftir því hver staða frágangs er í námunni og með því að smella á námuna er vakið upp pdf skjal með niðurstöðum rannsókna á steinefnum námunnar.
Fjöldi náma
Margar þeirra náma sem skráðar eru í námuskrá Vegagerðarinnar eru ekki lengur í notkun. Mikill fjöldi námanna eru litlar námur og er efnismagn í allmörgum þeirra orðið mjög lítið eða efni jafnvel búið. Í námuskránni eru skráðar samtals 3.344 efnisnámur en þar af eru 2.319 frágengnar námur.Umhverfisstofnun vottar frágang náma og hefur stofnunin vottað frágang á 608 eldri námum sem Vegagerðin hefur gengið frá á undanförnum árum. Auk þess hefur stofnunin eftirlit með námufrágangi í tengslum við nýframkvæmdir Landsvirkjunar, Vegagerðarinnar og fleiri aðila.
Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig námurnar skiptast eftir grófri flokkun jarðmyndana (frekari upplýsingar um jarðmyndanir má finna hér). Bergnámur eru einungis um 11% af heildarfjölda náma á landinu, en notkun grjóts fer þó smám saman vaxandi m.a. vegna þess að auðveldara er að tryggja jöfn gæði efnis í góðri grjótnámu en í setnámu þar sem efnið í setnámum er oft samsett af margvíslegum bergtegundum af misjöfnum gæðum. Um 89% af námum landsins eru setnámur. Flestar setnámur á landinu eru í áreyrum og malarhjöllum en hlutfallslega færri í öðrum setmyndunum þ.e. jökulruðningi, jökuláraurum, aurkeilum, skriðum og malarkömbum. Þá er efni dælt upp af sjávarbotni, t.d. í Faxaflóa.
Uppfært 26. mars 2019