Þykkt og gerð jarðvegs
Þar sem svarðlag og jarðvegur eru til staðar á fyrirhuguðu námusvæði er æskilegt að nýta það við námufrágang.
Gróðursvörðurinn og efsta lag jarðvegsins mynda svokallað svarðlag sem er um 0,2 m að þykkt. Í svarðlaginu er mikið af rótum og þar er moldin frjósömust. Einnig er þar að finna fræ margra plöntutegunda sem voru fyrir á svæðinu, auk fræs sem borist hefur frá aðliggjandi svæðum. Þegar svarðlagið er geymt við námuvinnslu kemur það að góðum notum við að endurheimta grenndargróður að efnisnámi loknu. Þykkt hinna einstöku jarðvegslaga getur verið afar misjöfn eftir aðstæðum. Á svæðum þar sem mikil gosaska hefur fallið og áfok hefur verið mikið getur jarðvegurinn verið margra metra þykkur en oft er hann innan við hálfs metra þykkur.
Gæta þarf vel að meðhöndlun svarðlagsins og geyma það eins stutt og hægt er, því það inniheldur frjósamasta hluta jarðvegsins og getur flýtt landnámi grenndargróðurs.
Dæmi um lagskiptingu jarðvegs í mólendi er sýnd á myndinni hér fyrir neðan.
Uppfært 5. apríl 2017.