Þekjusáning og áburðargjöf
Oft þarf að nota áburðargjöf og sáningu eða gróðursetningu til að mynda æskilega gróðurhulu og binda jarðveginn. Slíkt getur einnig stuðlað að landnámi grenndargróðurs og þróun svæðanna í átt að upprunalegu gróðurfari.
Notkun: Hægt að nota við fjölbreyttar aðstæður, m.a. á
landbúnaðarsvæðum. Getur hentað með aðferðum sem miða að því að endurheimta
grenndargróður. Ending sáðgresis minnkar oft með aukinni hæð yfir sjávarmáli en
einnig má búast við því að landnám grenndargróðurs og gróðurframvinda séu
hægari á hálendi en á láglendi.
Takmarkanir: Fara þarf varlega í áburðargjöf og þéttleika sáninga, einkum á frjósömum svæðum þar sem gróskumiklar sáningar geta hindrað landnám grenndargróðurs. Hætta er á að sáðtegundir verði ágengar eða að sáningarnar búi í haginn fyrir landnám ágengra tegunda.
Þekjusáning og áburðargjöf myndar fljótt þekju, dregur úr rofhættu og getur stuðlað að landnámi grenndargróðurs. Í flestum tilfellum er æskilegt að sáðgrös víki síðar fyrir grenndargróðri.Efniviðurinn er fræ af ræktuðum stofnum, oftast innfluttum. Tegundaval við sáningu fer m.a. eftir úrkomu, nýtingu svarðlags, rofhættu og því hvernig gróðurlendi er stefnt að. Hér á landi er algengast að nota blöndu af túnvingli, vallarsveifgrasi, hvítsmára og/eða einæru rýgresi. Slík blanda myndar fljótt gróðurþekju sem bindur jarðveg en víkur fyrir grenndargróðri þegar áburðargjöf lýkur. Leiðbeiningar um tegundaval og fræmagn við mismunandi aðstæður eru gefnar hér fyrir neðan.
Æskilegt getur verið að nota fleiri tegundir, svo sem língresi, sauðvingul, melgresi og birki, eftir aðstæðum og fræframboði.
Á sandfokssvæðum er brýnt að binda námusvæðið með gróðri til að hindra jarðvegsfok vegna röskunar á yfirborði, melgresi er t.d. íslensk tegund sem hentar vel.
Best er að sá í lygnu veðri þannig að áburður og fræ dreifist jafnt yfir allt svæðið. Jarðvegur skal vera rakur þegar sáð er. Besti tíminn til að sá er frá miðjum maí til miðs júlí. Þar sem lítil hætta er á vatnsrofi gefur haustsáning góðan árangur.
Beit hefur áhrif á árangur uppgræðsluaðgerða. Búfé sækir í áborin svæði og hefur áhrif á gróðurfar, meðal annars í þá átt að grös verði ríkjandi. Æskilegt er að loka uppgræðslu á námusvæðum fyrir búfjárbeit nema fyrirhugað sé að nýta hana sérstaklega til beitar. Þá þarf að gera ráð fyrir meiri áburðarnotkun og að borið sé á svæðið í fleiri ár. Í töflunni hér fyrir neðan er að finna leiðbeiningar um fræ- og áburðarmagn við uppgræðslu og endurheimt grenndargróðurs á námusvæðum. Eingöngu eru gefnar upp tölur fyrir nokkrar grasblöndur en æskilegt er að nota einnig aðrar plöntutegundir eftir markmiðum og framboði.
Mælt er með einni eftirtalinna fræblanda:
Fræblanda ætluð til notkunar á láglendi
|
Fræblanda Ib ætluð til notkunar á láglendi þar sem jarðvegsskilyrði eru góð | Fræblanda IIa ætluð til notkunar á hálendi |
Túnvingull (samkvæmt sáðvörulista*) 1,2 g/m2 | Túnvingull (samkvæmt sáðvörulista*) 0,8 g/m2 | Túnvingull, íslenskur (ef ófáanlegur notið Leik) 1,0 g/m2 |
Vallarsveifgras (samkvæmt sáðvörulista*) 0,8 g/m2 | Vallarsveifgras (samkvæmt sáðvörulista*) 0,8 g/m2 | Vallarsveifgras (Fylking) 1,0 g/m2 |
Hvítsmári (Unidorm) 0,2 g/m2 | Rýgresi (samkvæmt sáðvörulista*) 0,4 g/m2 | |
Hvítsmári (Unidorm) 0,2 g/m2 |
Mælt er með annarri eftirtalinna áburðarblanda:
- Áburðarblanda þar sem lágmarksinnihald efna, reiknað í
hreinum efnum, er eftirfarandi: N >22% og P > 5%. Ekki er gerð krafa um K
innihald.
- Áburðarmagn skal vera 30 g/ m2.
Þar sem landnám grenndargróðurs stendur yfir má flýta því með notkun lítilla áburðarskammta eingöngu, svo sem 150-200 kg/ha af áburði í 2-3 ár. Nokkuð er mismunandi milli landshluta hvaða áburðarblöndu er best að nota, en algengt er að nota áburð sem er 20-24% N og 12-14% P2O5. Á eldvirka beltinu getur verið nauðsynlegt að nota einnig brennistein í enduráburðargjöf, t.d. 2% S.
Venjulega eru borin um 200-300 kg af N-P áburði á hektara á grassáningar á fyrsta ári. Þó má nota minni skammt á úrkomulitlum svæðum og stærri skammt, allt að 400 kg/ha, þar sem úrkoma er mjög mikil. Þar sem rofhætta er mikil þarf að nota hærri skammta af áburði og fræi til að flýta fyrir myndun gróðurþekju. Lægri áburðarskammtar eru notaðir á öðru og þriðja ári eftir sáningu. Eftir það ætti ekki að þurfa áburðargjöf nema landnám og myndun gróðurþekju gangi illa.
Nauðsynlegt er að meta árangur uppgræðslu og ákvarða hvort framhaldsaðgerða sé þörf. Sjá nánar í kafla um mat á árangri .
Uppfært 5. apríl 2017.