Söfnun og dreifing fræslægju
Gróður er sleginn þegar fræþroski er í hámarki og dreift á uppgræðslusvæðið. Í slægjunni eru fræ, plöntuhlutar og mosabrot af grenndargróðri, auk þess sem slægjan ver yfirborð jarðvegs fyrir rofi og frosti og fangar fræ af grenndargróðri.
Notkun: Tiltölulega auðveld leið til að koma á legg ýmsum einkennistegundum valllendis, blómlendis og jafnvel votlendis og grasríks mólendis. Hægt að nota víða, meðal annars á viðkvæmum svæðum.
Takmarkanir: Fræmagn og tegundasamsetning eru háð sláttutíma þar sem mismunandi tegundir þroska fræ á mismunandi tímum. Hentar ekki fyrir margar einkennistegundir lyngmóa.
Efniviður: Slægja af grenndargróðri sem ber með sér fræ og/eða mosabrot. Leið til að fjölga ýmsum æðplöntu- og mosategundum sem almennt er ekki dreift í uppgræðsluverkefnum.
Til að safna fræjum og fjölgunareiningum plantna er gróður á gjafasvæði, með svipaðri gróðursamsetningu og námusvæði, sleginn í lok sumars þegar plöntur hafa þroskað fræ. Fræslægjan er svo flutt strax á raskaða svæðið. Nokkuð auðvelt getur verið að safna dágóðu magni af fræslægju sem getur nýst á nokkuð stór svæði.
Hægt er að slá gjafasvæði með sláttuorfi en einnig með sláttuvélum eða sláttutraktorum ef svæðið er nægilega slétt og þurrt. Gæta þarf þess að fara ekki of djúpt niður í gróðursvörðinn svo ekki verði skemmdir á gjafasvæði. Þegar fræslægju er dreift yfir raskað svæði getur verið gott að hafa hana þykka (ca. 0,30 m) svo að hún fjúki síður á brott. Gæta þarf þess að fræslægjusvæðið ofþorni ekki og því er gott að dreifa slægjunni í rigningatíð eða vökva svæðið.
Varist dreifingu fræslægju með framandi og ágengum
plöntutegundum. Nánari upplýsingar eru í kafla um ágengar tegundir.
Nauðsynlegt er að meta árangur uppgræðslu og ákvarða hvort framhaldsaðgerða sé þörf. Sjá nánar í kafla um mat á árangri.
Uppfært 6. apríl 2017.