Sjálfgræðsla
Í sumum tilfellum getur verið viðeigandi að sleppa inngripum til að græða upp námur og treysta á náttúrulega framvindu. Treyst er alfarið á að plöntutegundir sem vaxa í nágrenninu dreifist sjálfkrafa inn á námusvæðið og nemi þar land.
Notkun: Það getur meðal annars átt við þegar efnistaka er á auðnum, í skriðum eða á öðrum svæðum með mjög takmarkaða náttúrulega gróðurhulu, þar sem iðagrænar uppgræðslur myndu stinga í stúf við umhverfið.
Takmarkanir: Hætta er á rofi þar sem jarðvegur er skilinn eftir berskjaldaður, ekki síst í halla. Sjálfgræðsla getur verið mjög hæg og við höfum litla stjórn á útkomunni.
Örva má sjálfgræðslu með því að slétta frágengnar námur ekki of mikið og viðhalda örlandslagi, því fræ, lífræn efni og vatn safnast fyrir og haldast betur á hrjúfu yfirborði en sléttu. Að auki dregur hrjúft yfirborð úr rofhraða. Sjálfgræðsla er háð fræframboði og því hafa gróðurfar og landnýting grannsvæða mikil áhrif, bæði á hraða hennar og á útkomuna.