Nýting svarðlags
Huga þarf að notkun svarðlags til uppgræðslu strax við skipulag námuvinnslu. Svarðlagi frá framkvæmdarsvæði er dreift á yfirborð uppgræðslusvæðis, með eða án áburðar.
Notkun: Hægt að nota í margvíslegum gróðurlendum, t.d. í mólendi og graslendi.
Takmarkanir: Þar sem jarðvegur er grunnur eða grýttur getur afnám svarðlags verið vandasamt og seinlegt. Flutningskostnaður er talsverður og geymsluþol takmarkað, því er aðferðin aðeins möguleg ef fyrirsjáanleg er að geymslutími verði stuttur. Rasktegundir (t.d. klóelfting og vegarfi) úr fræforða geta orðið áberandi. Viðbótarsáning og áburðargjöf, einkum í frjósömu landi, getur leitt til myndunar þéttrar gróðurþekju sem hamlar landnámi grenndargróðurs
Efniviðurinn er gróðursvörður og efsta lag jarðvegs (100-200 mm) svokallað svarðlag sem inniheldur fræ, gró, plöntu- og rótarhluta, smádýr og örverur.
Á þýfðu landi skal miða við að ekki sé farið niður fyrir þúfnaþykkt þegar svarðlagið er fjarlægt af yfirborði landsins. Svarðlagið er ætlað til uppgræðslu og skal nýta það á svipuðum stað og það var tekið, þannig að nýr gróður verði í samræmi við gróðurinn í kring.
Svarðlagið er aðgreint frá undirliggjandi jarðvegi og dreift strax eða haugsett. Ef svarðlagið er haugsett skal það aðeins geymt í takmarkaðan tíma, ekki í þykkari haugum en 2-3 m. Reynið að láta rætur snúa niður til að gróður í svarðlaginu lifi sem lengst. Við frágang námusvæðis er svarðlagi dreift á yfirborðið og ef gróðurinn í svarðlaginu er lifandi skal reynt að láta rætur hans snúa niður. Þar sem leggja á út svarðlag til uppgræðslu skal vera a.m.k. 200 mm þykkt undirlag úr mold.
Meðhöndlun og geymsla svarðlags
Í svarðlaginu eru meðal annars plöntur, smádýr, örverur og rotnandi plöntuleifar. Ef svarðlagið er ekki haugsett, heldur flutt beint yfir á nýtt uppgræðslusvæði, þá lifir a.m.k. eitthvað af plöntunum í því. Eftir því sem svarðlagið er geymt lengur, eða í þykkari haug, eru minni líkur á að plöntur, fræ eða aðrar lífverur í svarðlaginu séu lifandi þegar það er notað. Því er æskilegt að áfangaskipta efnisnáminu eftir því sem hægt er og ganga frá eldri svæðum jafnóðum. Þá er einungis það svarðlag sem tekið er af í fyrsta áfanga haugsett en annað svarðlag er nýtt strax við frágang eldri svæða.
Haugsetning er algengasta aðferðin við geymslu svarðlags. Einnig er mögulegt að fletta svarðlaginu af yfirborði í hæfilega stórum gróðurtorfum, einkum þar sem lággróður er þéttur. Þessari aðferð er einungis hægt að beita þar sem tök eru á að þekja landið aftur skömmu síðar, en hún getur skilað góðum árangri fljótt ef vel er að verki staðið. Haugsetja skal jarðveginn sem er undir svarðlaginu og nýta síðar við frágang námusvæð-isins. Í áfangaskiptri námu má flytja jarðveginn jafnóðum á svæði sem búið er að slétta og er tilbúið til uppgræðslu. Æskilegt er að nota þennan jarðveg sem undirlag fyrir svarðlag þar sem því verður við komið.
Hægt er að takmarka verulega skemmdir á svarðlagi sem fyrir er, ef framkvæmdir hefjast síðla hausts eða snemma vetrar og lýkur snemma vors, áður en gróður hefur tekið við sér. Frost skaðar ekki haugsett svarðlag.
Meðhöndlun svarðlags og jarðvegs á námusvæði við upphaf efnisnáms
Þar sem svarðlag og jarðvegur eru ekki nýtt jafnóðum til frágangs, þarf að flytja svarðlagið og þann jarðveg sem undir því er yfir á haugsvæði til geymslu í aðskildum haugum. Þannig er þessu efni haldið til haga, svo að það nýtist til uppgræðslu að efnisnámi loknu.
Tilhögun við afnám svarðlags og annars jarðvegs:
- Fyrst er svarðlagi, sem er um 200 mm þykkt, ýtt ofan af námusvæði og því haldið aðskildu frá öðrum jarðvegi á haugsvæði. Svarðlagið þarf að setja í hrygg, sem ekki er hærri en 2 metrar. Þar þarf svarðlagið að liggja óhreyft meðan á efnisnámi stendur svo varðveisla þess sé tryggð eins og kostur er.
- Þegar svarðlagi hefur verið ýtt ofan af þarf að halda nægum jarðvegi sérstaklega til haga til að þekja námusvæðið við frágang. Jarðvegur er lagður aftur ofan á námusvæðið í a.m.k. 200 mm þykkt og nýttur sem undirlag fyrir svarðlagið. Á skýringarmynd sést hvernig þessum jarðvegi er ýtt í annan haug á haugsvæði.
Sjá einnig skýringarmyndir hér fyrir neðan.
Frágangur svarðlags og jarðvegs á námusvæði við lok efnisnáms
Þegar jarðveginum hefur verið dreift yfir námusvæðið er svarðlaginu ýtt yfir. Ef nauðsyn krefur vegna rofhættu skal sá einærum eða skammærum grastegundum í svæðið. Á skýringarmynd er sýnt hvernig námusvæðið lítur út að frágangi loknum. Land hefur verið mótað að nýju og jarðvegi og svarðlagi verið komið aftur fyrir á yfirborðinu.
Geymsla gróðurtorfa og jarðvegs
Þar sem gróðurþekja og jarðvegur eru ekki nýtt jafnóðum til frágangs, þarf að flytja gróðurinn og það yfirborðsefni sem undir þeim er yfir á haugsvæði til geymslu í aðskildum haugum. Þannig er þessu efni haldið til haga, svo að það nýtist til vistheimtar að efnistöku lokinni. Gæta þarf þess að geymsluhaugarnir séu ekki of þykkir (<1,5 m), svo súrefni komist að gróðrinum neðst í haugnum.
Betri árangur næst ef gróðurtorfurnar er ekki haugsettar, heldur fluttar beint yfir á nýtt uppgræðslusvæði, þá lifir meira af plöntunum. Eftir því sem gróðurþekjan er geymd lengur eða í þykkari haug eru minni líkur á að plöntur, fræ eða aðrar lífverur haldist lifandi. Því er æskilegt að áfangaskipta efnisnáminu eftir því sem hægt er og ganga frá eldri svæðum jafnóðum. Þá eru einungis sú gróðurþekja sem tekin er af í fyrsta áfanga haugsett en önnur gróðurþekja er nýtt strax við frágang eldri svæða.
Hægt er að takmarka verulega skemmdir á gróðurtorfum, ef framkvæmdir hefjast síðla hausts eða snemma vetrar og lýkur snemma vors, áður en gróður hefur tekið við sér. Frost skaðar ekki haugsett svarðlag eða gróðurtorfur.
Varist notkun á svarðlagi með framandi og ágengum plöntutegundum. Nánari upplýsingar eru í kafla um ágengar tegundir.
Nauðsynlegt er að meta árangur uppgræðslu og ákvarða hvort framhaldsaðgerða sé þörf. Sjá nánar í kafla um mat á árangri.
Uppfært 5. apríl 2017.