Mosadreifing
Mosi dreifist með gróum en einnig með foki plöntuhluta og heilla plantna. Mosahræringur sem útbúinn er úr mosa, súrmjólk og vatni virkar ágætlega til að örva landnám mosa á mold.
Notkun: Mosagreinum eða mosabrotum er dreift á uppgræðslusvæði. Þetta er auðveld leið til að flýta landnámi mosa í námum í nútímahraunum. Einnig hægt að nota til að koma á legg mikilvægum mosategundum í fleiri gróðurlendum þar sem mosar eru áberandi t.d. í graslendi og mýrlendi.
Takmarkanir: Landnám er mjög háð aðstæðum og tegundum; til dæmis geta fok og vatnsrennsli skapað vandamál á sléttu yfirborði. Vöxtur mosans er hægur til að byrja með, þannig að erfitt getur verið að greina árangur fyrstu árin.
Mosi er algengastur í nútímahraunum þar sem jarðvegur er af skornum skammti. Hann getur verið fljótur að dreifa sér af sjálfsdáðum þar sem aðstæður eru hagstæðar eins og t.d. í Eldhrauni.
Þeir umhverfisþættir sem virðast hafa hvað mest áhrif á landnám mosa eru yfirborðsgerð og úrkoma. Hægt er að örva landnám mosa á röskuðum svæðum með því að dreifa mosaþúfum, mosagreinum og mosahræringi. Yfirborðsgerð hefur mikil áhrif á árangur þeirra aðferða sem valdar eru.
Efniviður: Mosagreinum/mosabrotum er safnað. Mosanum er dreift annað hvort einum sér eða í blöndu með vatni eða súrmjólk til að auka viðloðun.
Mold sem undirlag getur verið takmarkandi þáttur fyrir
mosagreinar, en mosahræringur sem útbúinn er úr mosa, súrmjólk og vatni virkar
hins vegar ágætlega til að örva landnám mosa á mold.
Ef örva á landnám hraungambra, sem er ein algengasta mosategund landsins, þá er árangur margfalt betri ef hraunmolar og/eða hraungjall eru notuð sem undirlag. Við framkvæmdir í hrauni er því mikilvægt að halda til haga hraunmolum og/eða hraungjalli til að nýta í frágang. Einnig að safna mosanum og nýta hann svo til að dreifa yfir röskuð svæði þar sem mosaþekja hefur skemmst. Hægt er að geyma mosa í frystigámi í a.m.k. eitt ár og nýta hann beint í endurheimt mosaþekju.
Líklega getur áburðargjöf hjálpað landnámi ákveðinna mosategunda. Val á áburði fer eftir jarðvegsgerð á svæðinu. Ekki skal nota húsdýraáburð eða grasfræ.
Ef mosa er safnað af svæðum sem ekki lenda undir framkvæmdum þarf að ganga vel um og takmarka rask eins og kostur er. Efniviðurinn er drjúgur og nýtist á mun stærra svæði en hann er tekinn af.
Varist
flutning á gróðurtorfum með framandi og ágengum mosategundum. Nánari upplýsingar eru í kafla um ágengar tegundir.
Nauðsynlegt er að meta árangur uppgræðslu og ákvarða hvort framhaldsaðgerða sé þörf. Sjá nánar í kafla um mat á árangri.
Uppfært 6. apríl 2017.