Gróðursetning græðlinga eða stiklinga
Víða er mögulegt að safna efniviði til uppgræðslu í nágrenni námusvæða. Árangur af gróðursetningu græðlinga er betri sé hún gerð snemma vors, rétt eftir að frost er farið úr jörðu. Græðlingar eða stiklingar eru gróðursettir beint eða eftir lengri eða skemmri forræktun.
Notkun: Nokkuð örugg leið til að koma ýmsum tegundum á legg. Mest reynsla er af víðitegundum. Hægt að nota víða, t.d. við uppgræðslu náma á viðkvæmum svæðum, svo sem í þjóðgörðum eða á hálendi. Þá þarf að gæta þess að efniviðurinn sé grenndargróður. Hægt að nota með þekjusáningum sem verja yfirborð jarðvegsins fyrir rofi og frostlyftingu.
Takmarkanir: Frostlyfting og rof geta valdið afföllum. Hugsanlega væri hægt að draga úr slíkum vandamálum með heyþakningu eða þekjusáningum. Staðarreynslu vantar af fjölgun fleiri tegunda með þessari aðferð.
Efniviður: Græðlingar eða stiklingar
af innlendum jurtum, smárunnum og runnum (hluti stofna, brum og í sumum
tilfellum blöð og rætur). Hentar vel fyrir allar víðitegundir. Fjallavíðir og
grasvíðir eru skriðular tegundir, loðvíðir og gulvíðir eru uppréttar og geta
orðið hávaxnar. Einnig er hægt að fjölga ýmsum blómjurtum á þennan hátt, t.d.
ljónslappa, gulmöðru, krossmöðru, eyrarrós og nokkrum innlendum belgjurtum s.s.
baunagrasi, umfeðmingi og smára.
Loð- og gulvíðir
Auðvelt er að fjölga víðigræðlingum með sprotum. Í leiðbeiningabæklingi Landgræðslu ríkisins eru greinagóðar leiðbeiningar um söfnun og gróðursetningu loð- og gulvíðigræðlinga. Einnig eru þar leiðbeiningar um söfnun og sáningu á víðireklum.
Víðigreinum er safnað af runnum á nálægum svæðum, en gæta þarf þess að ganga ekki of nærri gjafasvæðunum. Greinarnar eru klipptar í 20-25 cm langa græðlinga, ekki skal nota efsta hluta greinanna. Nauðsynlegt er að hreinsa lauf af græðlingunum svo að þeir tapi ekki raka. Æskilegt er að gróðursetja græðlingana innan við viku eftir klippingu en ekki er nauðsynlegt að láta þá ræta sig. Best er að gera holur fyrir græðlingana með járnteini. Græðlingunum er svo stungið á ská í holurnar, þannig að brumin vísi upp og einungis 2,0-2,5 cm af græðlingunum standi uppúr. Þjappa skal vel að græðlingunum. Heyþakning og áburðargjöf (sem samsvarar einum gostappa) getur bætt lifun græðlinganna töluvert.
Nauðsynlegt er að meta árangur uppgræðslu og ákvarða hvort
framhaldsaðgerða sé þörf. Sjá nánar í kafla um mat á árangri.
Uppfært 6. apríl 2017.