Flutningur á gróðurtorfum
Haldið er til haga heilum torfum af grenndargróðri og þær lagðar út við uppgræðslu. Hægt er að þekja uppgræðslusvæðið með torfum eða dreifa yfir stærra svæði.
Notkun: Námusvæði þar sem mikilvægt er að endurheimta náttúrulegt gróðurfar fljótt; ein öruggasta aðferðin við endurheimt lyngmóa. Þessi aðferð er ýmist notuð til að endurheimta fljótt heil gróðurlendi eða til að auka líffræðilega fjölbreytni.
Takmarkanir: Afnám og útlögn geta verið vandasöm, flutningskostnaður hár og geymsluþol takmarkað.
Efniviður: Í gróðurtorfunum eru lifandi plöntur, fræ, gró, næringarefni, smádýr og örverur. Torfur geta verið frá fáum sentimetrum og upp í nokkra metra í þvermál. Þykkt torfanna fer eftir gróðurlendi; æskilegt að sé yfir 100 mm.
Upptekt og endurlagning á gróðurtorfum er fljótleg og árangursrík aðferð til að endurheimta gróðurlendi m.a. smárunna sem erfitt getur verið að fjölga á annan hátt. Ef framkvæmdir eru áætlaðar á svæði með svipaða gróðursamsetningu og námusvæði, má taka upp gróðurþekjuna, flytja hana á námusvæðið og nýta í frágang. Þessa aðferð má einnig nota ef áætlað er að náma verði einungis í notkun í stuttan tíma, þá má taka upp gróðurtorfurnar áður en efnistaka hefst, halda þeim til haga meðan á framkvæmdum stendur og nýta þær svo í frágang á svæðinu. Reyna skal að taka upp eins heillegar gróðurtorfur og mögulegt er. Árangur er betri eftir því sem torfurnar eru stærri og tíminn styttri frá því að torfa er tekin og þar til hún er lögð út aftur. Mikilvægt er að aðskilja jarðveg, möl og steina frá gróðurtorfunum og flytja sér svo gróðurtorfurnar skemmist ekki. Einnig er mikilvægt að halda upp á yfirborðsefni/jarðveg sem er undir gróðurtorfunum og getur t.d. verið mold, möl, steinar eða hraunmolar.
Torfur mynda fljótt gróðurhulu með svipaðri áferð og
grenndargróður ef uppgræðslusvæðið er að mestu þakið með torfum (torfuhlutfall
1:1 til 1:2). Torfurnar mega vera strjálli til að auka líffræðilega fjölbreytni
á svæðinu en þá getur þurft að nota aðrar uppgræðsluaðgerðir samhliða til að
draga úr rofhættu. Æskileg torfustærð er háð gróðurlendi; 50 mm torfur nægja
fyrir graslendi en torfur úr lyngmóa ættu ekki að vera minni en 250-300 mm. Ef
yfirborðið er mjög óstöðugt má nota þekjusáningar með torfunum.
Gæta þarf vel að meðhöndlun gróðurtorfa til að efniviðurinn skemmist ekki og nýtist sem best við endurheimt fyrra gróðurfars. Ef flytja þarf torfurnar á vörubílspalli er mikilvægt að raða torfunum gætilega á pallinn og ekki flytja nema u.þ.b. þrjú lög af torfum í einu. Þegar torfunum er sturtað af pallinum er gott að láta bílinn keyra rólega áfram svo að það dreifist betur úr torfunum. Bestur árangur næst ef gróðurtorfurnar eru endurlagðar strax eftir að þær voru teknar upp.
Gróðurtorfurnar eru lagðar með grænu hliðina upp ofaná yfirborðsefni sem einnig hefur verið haldið til haga. Ekki er alltaf nauðsynlegt að leggja torfurnar þétt upp að hvor annarri, því með tímanum munu þær gróa saman. Þannig er hægt að nýta þær á stærra svæði en þær þöktu upphaflega.
Létt áburðargjöf á viðtökusvæðin (um 100 kg/ha) getur stuðlað að aukinni lifun tegunda og landnámi utan við torfurnar. Óvissa þó er um gagnsemi áburðargjafar í rýru mólendi, þar sem grös geta tekið yfir þekjuna á kostnað annarra tegunda. Á þurrum svæðum sérstaklega hálendinu og í þurrkatíð getur vökvun haft úrslitaáhrif á lifun tegunda.
Varist flutning á gróðurtorfum með framandi og ágengum plöntutegundum. Nánari upplýsingar eru í kafla um ágengar tegundir.
Nauðsynlegt er að meta árangur uppgræðslu og ákvarða hvort framhaldsaðgerða sé þörf. Sjá nánar í kafla um mat á árangri.
Uppfært 5. apríl 2017.