Uppgræðsla og vistheimt
Hér er lýst uppgræðsluaðferðum sem henta við mismunandi aðstæður.
Mikilvægt er að raska eins litlu landi og hægt er við námuvinnslu og þekja röskuðu svæðin fljótt með gróðri sem stuðlar að verndun jarðvegs og líffræðilegri fjölbreytni.
Raskist gróður eða eyðist við námuvinnslu ber að endurheimta að minnsta kosti sambærilega gróðurþekju þegar námuvinnslunni lýkur, í samræmi við 17. gr. laga nr. 17/1965 um landgræðslu.
Móta þarf land til að bæta gróðurskilyrði og þannig að ekki sé hætta á vatns- og vindrofi. Æskilegt er að uppgræðslusvæðið hafi hrjúfleika í samræmi við nærumhverfið, en sé snyrtilegt og án hauga, hryggja eða stalla, þannig að grenndargróður eigi auðveldara með að nema land.
Við val á uppgræðsluaðferðum skal miða við að gróðurfar námusvæðisins verði með tímanum sem líkast því gróðurfari sem var fyrir efnisnám. Í byggð getur komið til greina að rækta annan gróður á námusvæðinu ef það samrýmist fyrirhuguðum landnotum en ávallt skal reynt að endurheimta grenndargróður í óbyggðum. Vistheimt, sem er endurheimt upprunalegs gróðurfars, getur tekið langan tíma og er ekki alltaf gerleg, einkum þar sem rask hefur verið verulegt og lítill jarðvegur er til staðar.
Hér á eftir eru tenglar í uppgræðsluaðferðir og upplýsingar um við hvaða aðstæður þær henta:
Aðferð | Hentar |
Þekjusáning og áburðargjöf | Við fjölbreyttar aðstæður, m.a. á landbúnaðar- og sandfokssvæðum. |
Sáning innlendra tegunda | Hægt að nota víða, t.d. við uppgræðslu á viðkvæmum svæðum, svo sem í þjóðgörðum eða á hálendi. Sáning melgresis hentar á sandfokssvæðum. |
Flutningur á gróðurtorfum | Þar sem mikilvægt er að endurheimta náttúrulegt gróðurfar fljótt. Ein öruggasta aðferðin við endurheimt lyngmóa. |
Nýting svarðlags | Í margvíslegum gróðurlendum, t.d. mólendi og graslendi. |
Mosadreifing | Í nútímahraunum, gras- og mýrlendi. |
Söfnun og dreifing fræslægju | Hægt að nota víða, t.d. við uppgræðslu á viðkvæmum svæðum. |
Gróðursetning græðlinga eða stiklinga | Hægt að nota víða, t.d. við uppgræðslu á viðkvæmum svæðum. |
Sjálfgræðsla | Á auðnum eða öðrum svæðum með mjög takmarkaða gróðurhulu þar sem iðagrænar uppgræðslur myndu stinga mjög í stúf við umhverfi sitt. |
Þar sem gróðurhula er lítil þarf að koma á legg gróðri sem fellur vel að gróðurfari svæðisins eða búa í haginn fyrir landnám grenndargróðurs. Æskilegt er að vinna með grenndargróður eins og kostur er.
Þegar stefnt skal að endurheimt grenndargróðurs er nauðsynlegt að huga að tengslum gróðurs, undirlags og landforma. Æskilegt er að efsta yfirborðið sé samskonar og það var áður en efnistaka hófst, t.d. ef náma er í hrauni er mikilvægt að á yfirboðinu séu hraunmolar eða hraungjall en að yfirborðið sé gróið á grónum svæðum. Einnig að líkja eins og kostur er eftir halla og lögun óraskaðra landforma sem eru einkennandi umhverfis námusvæðið. Ef til er loftmynd eða mynd af svæðinu, áður en efnistaka hófst, er mögulegt að endurgera landslagið. Einnig þarf að móta land með hliðsjón af gróðurskilyrðum og þannig að ekki sé hætta á vatns- og vindrofi.
Þegar landmótun á námusvæði er lokið, þarf að huga að vistheimt á svæðinu. Val á vistheimtaraðferðum fer meðal annars eftir:
- Ríkjandi gróðurfari á svæðinu og í nágrenni þess.
- Þykkt og gerð jarðvegs.
- Hæð yfir sjávarmáli.
- Grunnvatnsstöðu, hvort um er að ræða votlendi eða þurrlendi.
- Jarðmyndunum á námusvæði, hvort um laus setlög er að ræða
eða grjótnám.
- Framboði á efniviði (grenndargróðri) vistheimtar.
- Frágangi svæðisins, t.d. hrjúfleika.
- Tímasetningu framkvæmda.
- Fyrirhugaðri nýtingu svæðisins.
Uppfært 5. apríl 2017.