Skipulag frágangs
Mikilvægt er að skipuleggja efnistökuna þannig að námusvæðið falli vel að umhverfi sínu að efnistöku lokinni.
Ganga þarf frá öllum efnistökusvæðum strax og efnistöku lýkur. Almenna reglan við frágang efnistökusvæðis er sú að ganga þarf þannig frá svæði að það falli aftur að umhverfi sínu og líkist sem mest landformum í nágrenni þess. Þannig má stuðla að því að umhverfið beri efnistöku lítt eða ekki merki.
Þegar sótt er um framkvæmdaleyfi þarf að koma fram hvernig staðið verður að frágangi. Framkvæmdaraðila er skylt að fylgja áætlun sinni um frágang efnistökusvæðis. Áætlun um frágang skal taka mið af:
- umhverfi efnistökusvæðis og
- fyrirhugaðri landnotkun í framtíðinni.
Ef efnistökusvæði er gróið áður en efnistaka hefst, þarf að græða það upp þegar efnistöku lýkur. Bannað er að brenna og urða úrgang í námum og því skal fjarlægja allan úrgang af efnistökusvæðum áður en frágangur hefst.
Frágangur og staðsetning efnishauga þarf að taka mið af því hversu varanlegur hluti umhverfisins efnið verður. Tippa þarf að fella að landslagi og gróðurfari nánasta umhverfis, því þeir verða hluti landslags að frágangi loknum. Hauga þarf að staðsetja þannig að auðvelt sé að taka úr þeim efni. Þó er nauðsynlegt að fella þá eins vel að landslagi og hægt er, svo þeir verði ekki lýti á landslagi. Haugsvæði þarf að vera nægjanlega stórt til að hægt sé að koma fyrir lausum jarðvegi, svarðlagi og öðru efni sem þarf til að ganga vel frá efnistökusvæði.
Sérstaka umfjöllun um skipulag og frágang vegna efnistöku í hrauni er að finna hér.
Dæmi um námufrágang
Nauðsynlegt er að ganga vel frá námum að efnistöku lokinni. Hér á vefnum er að finna nokkur dæmi um frágang náma, sem sýna hvernig landslag hefur verið fært aftur til fyrra horfs eða land mótað þannig að efnistökusvæði falli sem best að umhverfinu þegar efnistöku lýkur (sjá kort á forsíðu vefsins). Námunúmer viðkomandi náma vísar í námuskrá Vegagerðarinnar.Undanþágur frá ákvæðum um frágang
Í 4. mgr. 16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir m.a. að efnistökusvæði skuli ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en í þrjú ár. Sveitastjórn getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði, enda séu sérstakar ástæður fyrir tímabundinni stöðvun.
Hugsanlegar ástæður fyrir slíkri undanþágu væru til dæmis:
- Hætta er á landbroti eða tjóni á mannvirkjum vegna ágangs sjávar eða fallvatna og því nauðsynlegt að hafa góðan aðgang að efni til rofvarna.
- Jarðfræðilega áhugaverðir þverskurðir eða annað ámóta er að finna.
- Þörf er á efni vegna reglubundins viðhalds eða viðgerða.
Námurétthafi skal tryggja að ekki stafi slysahætta af ófrágengnum námum.