Landmótun
Með landmótun er átt við mótun raskaðra svæða þannig að þau falli sem best að umhverfi sínu að efnistöku lokinni. Markmið landmótunar er að sýnileg ummerki efnistökunnar verði eins lítil og kostur er og hverfi jafnvel með tímanum.
Þau náttúrulegu ferli sem ráða mestu um ásýnd landsins eru svokölluð innræn og útræn öfl jarðar. Innrænu öflin valda landreki, eldsumbrotum og jarðskjálftum. Útrænu öflin vinna ásamt þyngdaraflinu að mótun yfirborðs jarðar, þ.e. að því að brjóta niður berg. Það ferli nefnist veðrun en flutningur bergmylsnu rof. Innrænu öflin s.s. eldgos og útrænu öflin t.d. jöklar og vatnsföll vinna mjög hratt hér á landi að mótun landsins. Magn þess bergs sem kemur upp á yfirborð í eldgosum og magn lausra jarðefna sem verða til við veðrun og rof, er mun meira en maðurinn getur notað en hafa verður í huga að dreifing lausra jarðefna um landið er misjöfn, sérstaklega þegar magn og gæði eru höfð í huga.
Manngerð form og náttúruleg form þurfa ekki að vera andstæður. Því má slá föstu að flest öll form séu í raun náttúruleg, en það sem orkað geti tvímælis er það umhverfi sem maðurinn velur þessum formum. Í þessu samhengi má líta svo á að maðurinn sé hluti af náttúrunni sem hann mótar og nýtir á þann hátt sem honum hentar á hverjum tíma. Myndin hér til hliðar af sjóvarnar- og leiðigörðum við Hornafjarðarós sýnir skemmtilegt samspil manns og náttúru, við mótun nýrra landforma. Við efnistöku er svæði raskað þegar efni er fjarlægt og landslagi breytt. Ný form bætast við landslag vegna efnistöku, en ef vel er gengið frá námusvæðum, þegar efnistöku er hætt, getur ný ásýnd landsins fallið vel að landformun svæðisins.
Sjálf efnistakan er sjaldnast varanleg framkvæmd. Efnistaka er tímabundin og hefur yfirleitt ekki annað markmið en að fjarlægja það efni sem óskað er eftir í hvert sinn. Efnistöku lýkur þegar efni er búið eða þegar ekki er þörf á meira efni.
Ummerki efnistöku geta haft ákveðið gildi, þar sem þau eru talin setja svip á landslag eins og gjallhaugar gera víða á Bretlandi. Þar eru þeir sums staðar taldir með menningarminjum eða sem menjar um horfna verkmenningu. Hér á landi eru t.d. mógrafir, surtarbrandsnámur og silfurbergsnáma við Helgustaði talin til menningarminja.
Eftir fall Rómarveldis urðu mörg opinber mannvirki í Rómaborg gjöfular grjótnámur. Í dag þætti slíkt ekki við hæfi enda önnur viðhorf ríkjandi um hvar og hvernig staðið skuli að efnistöku. Ástæðulaust er að elta ólar við hvernig efnistöku hefur verið háttað til þessa, enda þýðingarlaust að áfellast menn fyrir vinnubrögð sem þóttu sjálfsögð og eðlileg á sínum tíma.
Tilhögun landmótunar
Með landmótun er hér átt við frágang námusvæða sem felur í sér mótun raskaðra svæða á þann hátt að þau falli sem best að umhverfi sínu að efnistöku lokinni. Markmið landmótunar og viðeigandi uppgræðslu er að sýnileg ummerki efnistökunnar verði eins lítil og kostur er og hverfi algerlega með tímanum þar sem vel tekst til.
Hér verður greint á milli þrenns konar landmótunar sem byggist á þeim áhrifum sem efnistakan hefur á viðkomandi jarðmyndanir og nánasta umhverfi námusvæðanna og hvort um efnistöku í byggð eða óbyggð er að ræða. Ljóst er að bestur árangur næst í þeim tilfellum þar sem áætlun um frágang liggur fyrir áður en efnistaka hefst.
- Lagfæring jarðmyndunar felst í því að við efnistökuna er fylgt útlínum þeirrar jarðmyndunar sem efni er tekið úr. Þar sem það á við verði grenndargróður endurheimtur. Dæmi um slíkt er frágangur námu við Hvalnesskriður. Við frágang er þess gætt að fara ekki of djúpt inn í skriðuna þannig að vik myndist og útlínur hlíðarinnar skerðist (sjá mynd hér til hliðar).
- Endurgerð jarðmyndunar eða endurgerð lands felur í sér að land er mótað að nýju þar sem jarðmyndun hefur verið skert eða fjarlægð við efnistöku. Markmið landmótunar af þessu tagi er að fella efnistökusvæðið að nánasta umhverfi á þann hátt að það teljist eðlilegur hluti þess. Sá gróður sem fyrir var er látinn aðlaga sig eftir föngum að nýjum aðstæðum. Dæmi um efnistöku af þessu tagi eru annars vegar úr Mýrdal þar sem tjarnir voru mótaðar við efnistökuna og hins vegar úr Norðurárdal þar sem við efnistökuna var grafinn nýr farvegur Norðurár (sjá myndir hér til hliðar).
- Ný landmótun samfara öðrum landnotum. Helsti munur á frágangi í þessum flokki og þeim á undan felst í því að fyrirhuguð landnot ráða mestu um landmótun og uppgræðslu. Hér væri til dæmis um að ræða efnistökusvæði sem nýta ætti sem tún eða byggingalóðir að efnistöku lokinni. Landmótun af þessu tagi á helst við í byggð. Dæmi um þetta er spennistöð sem reist var á gömlu efnistökusvæði við Korpúlfsstaði (sjá mynd hér til hliðar).